132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:45]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Í fyrsta lagi var okkur gerð grein fyrir því í fyrra að það frumvarp sem er í umhverfisráðuneytinu væri á vinnslustigi og von væri á því mjög fljótlega. Síðan kom fram frá hendi undirstofnana umhverfisráðuneytisins mjög hörð gagnrýni á þessi mál öll sömul. Þar var einmitt bent á að frumvörpin þyrftu að fylgjast að til að menn gætu skoðað þessi mál í heild.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég varð líka fyrir vonbrigðum með að hæstv. ráðherra skyldi ekki svara því skýrt hvernig á því standi að athugasemd Lögmannafélagsins, þar sem þeir segja að það orðalag sem þarna er sett fram af hendi stjórnvalda í þessu máli, sé til þess fallin að vekja vafa um markmið breytinganna. Þá hljóta þeir að eiga við að það geti skipt máli þegar menn takast á fyrir dómstólum í framtíðinni um þessa hluti. Hvers vegna var ekki brugðist við því núna þegar málið er lagt fram að nýju til þess að skýra málið? Það skil ég ekki og ég bið hæstv. ráðherra að svara því.