132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:46]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég kom að í framsöguræðu minni áðan er enginn vafi á því miðað við réttarreynslu okkar og ég vitna í Þorgeir Örlygsson prófessor þar sem það liggur algerlega ljóst fyrir hvar eignarrétturinn liggur í þessum efnum. Það er sem sagt engin breyting á því, en það sem við erum að breyta er formið. Í staðinn fyrir að það sé jákvætt er það neikvætt í frumvarpinu. Það breytir engu um þessi grundvallaratriði hvort við ætlum að þjóðnýta þessa auðlind eða virða eignarréttinn.

Það mál sem hv. þingmaður nefndi í andsvari sínu og varðar ábendingu frá Lögmannafélaginu, ef ég skil rétt, þá tel ég ekki að ástæða sé til að taka tillit til þess en auðvitað er hægt að fara yfir það frekar í nefndinni. Ég tel að ekki sé grundvöllur til að breyta frumvarpinu með tilliti til þess.

Það sem ég sagði áðan hvað varðar eignarréttinn þá er með frumvarpinu ekki verið að breyta skilgreiningu á eignarrétti frá því sem áður var. Hann er fyrst og fremst skilgreindur frá 1998, í auðlindalögunum og það stendur.

Það eru álitaefni sem hv. þingmaður nefndi sem ég tel ekki ástæðu til að taka tillit til miðað við það að við erum búin að fara í gegnum þetta frumvarp aftur og aftur m.a. í samvinnu við umhverfisráðuneytið og það stendur. Auðvitað ætla ég ekki að neita því að farið verði yfir þetta einu sinni enn í hv. nefnd.