132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:52]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Einu rökin sem hæstv. ráðherra kemur með eru þau að vatnalögin séu frá 1923. En í greinargerðinni með frumvarpinu kemur fram að vatnalögin hafi reynst mjög vel hingað til, þau séu að vísu komin til ára sinna en það sé engin knýjandi þörf á að endurskoða þau vegna þess að þau séu svo gölluð, það sé komin túlkunarhefð á þau vatnalög, m.a. sú sem ráðherra lýsti í ræðu sinni og það sé ekkert sem knýr á um ný lög.

Yfirlýst meginmarkmið þessa frumvarps kemur fram í 1. gr. og það er að skýra eignarréttinn. Það á að vera skýr eignarréttur en hvað segir ráðherra sjálfur og starfsmenn hennar í greinargerðinni, hæstvirtur og háttvirtir út af fyrir sig? Þeir segja að þetta sé formbreyting, það sé bara formbreyting með eignarréttinn vegna þess að hann sé í raun og veru alveg eins. Nú er það alls ekki svo eins og Umhverfisstofnun sagði í fyrra. Það er auðvitað mikil breyting frá hinum jákvæða eignarrétti, úr hinni jákvæðu skilgreiningu og yfir í hina neikvæðu vegna þess að hin jákvæða tekur til alls þess sem sá sem nýtir vatnið má gera en hin í raun og veru telur undantekningarnar. Augljós munur á þessu tvennu, af því að þetta er ekki formbreyting, er auðvitað sá að ef kæmi til nýs gagns af vatni sem lögin gera ekki ráð fyrir, þá gerir jákvæða skilgreiningin ráð fyrir að löggjafinn verði að gera svo vel að skilgreina það upp á nýtt hvort þetta má eða ekki en neikvæða skilgreiningin gerir ráð fyrir að eigandinn geti gert það sem honum sýnist án afskipta löggjafans.

Þetta kemur hins vegar ekki fram hjá ráðherranum heldur segir hún: Þetta breytir engu, það er engin breyting, það er bara formbreyting en samt er eina ástæðan sem hún nefnir í raun og veru fyrir að flytja þetta frumvarp sú að skýra þurfi eignarréttinn. Hvaða vit er í þessu, forseti? Af hverju lætur ráðherrann svona? Af hverju viðurkennir hún ekki a.m.k. að breytingin frá jákvæðu skilgreiningunni til neikvæðrar skilgreiningar er breyting og þar með sé verið að þrengja að almannarétti og auka vægi einkaréttarins og í raun gefa einkaréttinum allt sviðið í þessu efni?