132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:54]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef tekið eftir því að hv. þm. Mörður Árnason kemur upp í hverju málinu á fætur öðru og biður um að það sé dregið til baka. Ég held að þingið hafi fram að þessu ekki verið yfirhlaðið störfum þannig að ég held að full ástæða sé til að reyna að vinna í þeim frumvörpum sem lögð eru fram.

Það að verið sé að auka vægi einkaréttarins með þessu frumvarpi er ekki rétt. Það er búið að margsýna sig og réttarframkvæmdin hefur viðurkennt eignarrétt landeigenda að vatnsorku í gegnum áratugina og þess vegna er ekki verið að gera breytingu hvað það varðar. Þetta er bara eitthvað sem hv. þingmenn telja pólitískt sniðugt (Gripið fram í.) að leggja málið fram með þessum hætti eins og þeir gera. En það er ekki um þá grundvallarbreytingu að ræða á þessu frumvarpi eins og hv. þingmenn sumir hverjir eru að gefa sér. Hins vegar hljóta allir að sjá að lög frá 1923 passa ekki vel í dag. Ekki þarf mörg orð til að útskýra það hvað þjóðfélagið hefur breyst á þeim árum sem liðin eru. Ég tel því að frumvarpið eigi fullt erindi inn í þingið og vonast til að það geti orðið að lögum sem allra fyrst.