132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:56]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Til að taka upp þráðinn þar sem honum var sleppt þá stöndum við náttúrlega frammi fyrir þessari spurningu: Ef nauðsyn krefur að breyta lögum sem sett voru árið 1923, hvernig gerum við það best til að svara kalli tímans? Ég held að það hafi komið skýrt fram í máli stjórnarandstöðuþingmanna sem hér hafa talað og ég hef trú á því að það sé ríkjandi viðhorf í þinginu og utan þess að þörf sé á að setja heildstæða löggjöf um vatn, verndun þess og nýtingu. Spurningin snýst hins vegar um forgangsröðun og með hvaða hætti eigi að setja þá löggjöf og á hvaða forsendum hún eigi að hvíla.

Í fyrra var lagt fram frumvarp að nýjum vatnalögum sem sætti mjög mikilli gagnrýni innan þings og utan og fór svo að ríkisstjórnin féllst á að draga frumvarpið til baka. Nú er það komið fram að nýju með einhverjum breytingum. Breytingarnar eru þó minni en menn höfðu búist við. Ég nefni tvær ástæður fyrir því að menn höfðu talið að gerðar yrðu meiri breytingar á frumvarpinu en raunin hefur orðið.

Í fyrsta lagi var gagnrýnin sem fram kom mjög mikil frá ýmsum samtökum en einnig frá stofnunum sem sinna þessum málum. Hér hefur verið vísað til gagnrýni Umhverfisstofnunar. Náttúrufræðistofnun setti fram mjög harða gagnrýni á það frumvarp. Reyndar voru höfð mjög sérkennileg vinnubrögð við vinnslu frumvarpsins. Orkustofnun var fengið það hlutverk að stunda einhvers konar einkunnagjöf gagnvart þeim sem höfðu sent inn athugasemdir og af því að vitnað var í harða gagnrýni Umhverfisstofnunar má geta þess að Orkustofnun leyfði sér að segja um þá álitsgerð, með leyfi forseta:

„Orkustofnun telur það Umhverfisstofnun til verulegs vansa að láta frá sér fara aðra eins umfjöllun og raun ber vitni um lögfræðileg atriði.“

Hún var fengin af hálfu ríkisstjórnarinnar sem eins konar einkunnagjafi til að fella dóma yfir þeim sem höfðu sent inn athugasemdir við það frumvarp. Þetta er önnur ástæðan fyrir því að við höfðum talið að meiri breytingar yrðu gerðar á frumvarpsdrögunum en raun ber vitni.

Hin ástæðan er sú að formaður þingflokks Framsóknarflokksins lýsti því yfir á opinberum vettvangi ekki alls fyrir löngu að frumvarpið yrði ekki lagt fyrir þingið að nýju nema verulegar breytingar hefðu verið gerðar á því frá því það lá fyrir þinginu sl. vor. Ég sakna þess að hv. þm. Hjálmar Árnason skuli ekki vera í þingsal til að skýra þingheimi frá þeim ummælum sínum og hvað valdi því að hér birtist nú frumvarp með tiltölulega litlum breytingum frá því sem var í vor.

Hv. þm. Hjálmar Árnason var staddur á fundi sem sjö félagasamtök höfðu efnt til. Þar sem fjallað var um vatn. Yfirskriftin var: Vatn fyrir alla. Og hv. þingmaður, Hjálmar Árnason, hafði þar ágætis innlegg. Sérstaklega fögnuðu menn yfirlýsingu hans um vatnalögin og breytingar sem væru fyrirhugaðar á frumvarpinu. En á þessari ráðstefnu var kynnt yfirlýsing frá sjö félagasamtökum og stofnunum í samfélaginu, BSRB, þjóðkirkjunni, Menningar- og fræðslusambandi íslenskra kvenna, Landvernd, Kennarasambandi Íslands, Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja og Náttúruverndarsamtökum Íslands. Yfirlýsingin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Undirrituð samtök vilja með sameiginlegri yfirlýsingu þessari vekja athygli ríkisstjórnar, sveitarstjórna, stofnana, fyrirtækja og almennings á mikilvægi og sérstöðu vatns fyrir land, þjóð og lífríki. Þótt enginn vatnsskortur sé á Íslandi þá er staðan önnur víðast hvar í heiminum. Gnótt vatns gefur því ekki tilefni til skeytingarleysis af okkar hálfu. Þvert á móti ber okkur að færa lagaumgjörð um vatn í þann búning að hún tryggi rétta forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu og geti verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Hugsa verður til framtíðar og hafa almannahagsmuni og náttúruvernd að leiðarljósi.

Vatn er takmörkuð auðlind og almannagæði sem er undirstaða alls lífs og heilbrigðis. Vatn er frábrugðið öðrum efnum að því leyti að það finnst náttúrulega í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn.

Undirrituð samtök telja að aðgangur að vatni sé grundvallarmannréttindi, eins og kveðið er á um í samþykktum Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur undirgengist. Sérhver maður á því rétt á aðgengi að hreinu drykkjarvatni og vatni til hreinlætis og heimilishalds.

Líta ber á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki má fara með eins og hverja aðra verslunarvöru.

Nýting vatns skal vera sjálfbær og aðgengi að því tryggt með lögum fyrir núlifandi kynslóð og kynslóðir framtíðarinnar. Það er skylda stjórnvalda að tryggja þegnum sínum þennan rétt án mismununar.

Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja verndun vatns sem náttúruverðmæta sem og að tryggja hollustu og dreifingu vatns til allra þjóðfélagsþegna með fjárfestingu í mannvirkjum og mengunarvörnum. Vatnsveitur verði því reknar á félagslegum grunni, taki mið af almannahagsmunum og tryggi rétt einstaklinga til nægilegs hreins vatns til drykkjar og hreinlætis á viðráðanlegu verði. Það er jafnframt hlutverk stjórnvalda að tryggja að við nýtingu vatns verði öðrum náttúruverðmætum ekki spillt.

Stjórnvöldum ber að tryggja almenningi aðgengi að öllum upplýsingum er varða verndun og nýtingu vatns og stuðla að aukinni virkni almennings og meðvitund um mikilvægi vatns, náttúru og réttrar umgengni við landið.

Vegna mikilvægis vatns fyrir íslenska þjóð og lífríki landsins telja undirrituð samtök nauðsynlegt að fest verði í stjórnarskrá Íslands ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns. Lög og reglugerðir um nýtingu vatns taki því mið af ákvæðum sem viðurkenna rétt einstaklinga til vatns sem og lögum er varða verndun vatns og náttúru.

Til að tryggja skilvirka verndun og nýtingu vatns ber stjórnvöldum að skipuleggja stjórnsýslu þannig að eðlilegt jafnvægi sé á milli þessara þátta og réttar einstaklinga til aðgengis að vatni.“

Þetta er ályktun sjö félagasamtaka og mér er sagt að þeim fjölgi nú félagasamtökunum sem leggi nafn sitt við þessa ályktun. Nú spyr ég: Hver er andinn í þessari ályktun? Hann er að líta beri á vatn sem mannréttindi og sem náttúruauðlind af skornum skammti. Hér er komin sú forgangsröð sem þessi samtök vilja hafa við smíði lagabálks um vatnið. Hæstv. ráðherra vitnar í lagasmíð frá öndverðri 20. öldinni og segir að tími sé kominn til að breyta lögum sem þá voru sett. Í sjálfu sér er ástæða til að taka undir þetta. Þá er spurning: Hver er krafa tímans nú? Árið 1907 voru sett fossalögin svokölluðu sem miðuðu fyrst og fremst að því að verja íslenska almannahagsmuni gagnvart erlendum aðilum sem ásældust fossana og vildu virkja í landinu. Síðan er aftur lagst yfir lögin árið 1917. Þá er skipuð nefnd sem gekk undir heitinu Fossanefndin. Hún klofnar eftir tveggja ára starf. Meiri hluti nefndarinnar vildi tryggja almannahagsmuni, sameiginlegan eignarrétt yfir vatninu. En það var minni hlutinn sem horfði til einkahagsmuna og eignarréttar einstaklinganna. Þessi saga er rakin í greinargerð með frumvarpinu, hvernig Einar Arnórsson prófessor var fenginn til þess að semja nýtt frumvarp og síðan hafi einkaeignarréttarsjónarmiðin orðið hinum sterkari. Á þetta benti hæstv. ráðherra í máli sínu áðan. Nú spyr ég, og ég tek hæstv. ráðherra á orðinu þegar hún leggur áherslu á nauðsyn þess að breyta þessum lögum, hvort ekki sé ástæða til að svara því kalli sem ekki aðeins kemur frá félagasamtökum í landinu heldur einnig frá Sameinuðu þjóðunum og frá ýmsum stofnunum og hópum sem horfa á þessi mál núna. Eigum við ekki að svara kalli þessara aðila þegar þessi lög eru tekin til skoðunar að nýju? Mér fannst gæta ákveðinnar mótsagnar í máli hæstv. ráðherra. Annars vegar er talað um nauðsyn þess að breyta gömlum lögum. Hins vegar rígheldur hæstv. ráðherra sér í íhaldssömustu sjónarmiðin sem er að finna í þeim lagabálki.

Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem því miður hefur að geyma allt of litlar breytingar, frá því í vor er hert á eignarréttarákvæðunum. Hér segir, með leyfi forseta:

„Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“

Í 18. gr. frumvarpsins er síðan talað um nýtingarréttinn með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

„Orkunýtingarréttur fasteignareiganda takmarkast við það að enginn sé sviptur vatnsnotum skv. 15. gr. né neinum bakaðir óhæfilegir örðugleikar um slíka notkun né vatni sem nota þarf með þeim hætti spillt fyrir neinum svo að til verulegra óþæginda horfi.“

Í greinargerðinni er vísað í almenn heimilisnot og að þeim slepptum segir hér, með leyfi forseta:

„Að þeim notum slepptum er ekki ráðgert að lögð séu sérstök bönd á fasteignareiganda hvað varðar nýtingu og ráðstöfun vatnsréttinda.“

Alls staðar í frumvarpinu og í skýringargögnum með því er hert á þessum eignarhaldsákvæðum.

Hins vegar er það ekki alveg rétt að vatnalögin frá 1923 hafi ekki verið tekin til endurskoðunar. Það sem hefur verið að gerast hér á undanförnum árum er einmitt það að vatnalögin eða innihald þeirra hefur verið tekið og bútað niður og er og hefur verið að birtast okkur í aðskiljanlegum lagasmíðum undangenginna ára, í lögum um vatnsveitur, raforkulögum, lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sem núna eru til endurskoðunar og birtust okkur síðastliðið vor í frumvarpsdrögum um jarðrænar auðlindir. Meginstefnan, megináherslan í allri þessari lagasmíð er að flytja yfirráðin yfir vatni úr umhverfisverndarumhverfinu yfir í nýtinguna, frá umhverfisráðuneyti og yfir til iðnaðarráðuneytis. Þetta er meginstefnan, rauði þráðurinn í lagasmíð ríkisstjórnarinnar á undangengnum árum. Það er hérna sem við teljum að þurfi að endurskoða afstöðuna í öllum grundvallaratriðum. Síðan er hitt, mikilvægi þess að skoða þessi mál heildstætt. Og af því ég var að vitna í einkunnagjöf Orkustofnunar um þá aðila sem veittu umsögn um vatnalögin síðastliðið vor þá segir hér á einum stað, með leyfi forseta:

„Litið er til vatnalífríkis í tilskipuninni“ — og það er vitnað í tilskipun Evrópusambandsins — „sem gleggsta vísisins fyrir vatnsgæðin og því lögð áhersla á eftirlit með því. Sú umsýsla sem þar er gert ráð fyrir lýtur að þessu viðfangsefni. Þau mál eru hérlendis á forræði umhverfisráðuneytis og í umsjón Umhverfisstofnunar og gerir frumvarpið til vatnalaga ekki ráð fyrir breytingum á þeirri skipan. Frumvarp til vatnalaga fjallar um aðrar hliðar vatnamála en ekki um vatnsverndun og vatnsgæði og er því hér ekki um skörun að ræða.“

Í rauninni er þetta allt einn pakki sem þarf að skoða heildstætt. Þar með er ekki sagt að ekki sé hægt að taka á honum með aðskiljanlegum lögum eða fleiri en einni lagasmíð. En hér skiptir þó öllu máli hvað hefur forgang, hvar menn byrja. Þess vegna vil ég taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Marðar Árnasonar um mikilvægi þess að byrja á vatnsverndinni, að byrja á þeim þættinum. Síðan eigum við að spinna okkur áfram því allt er þetta á endanum spurning um forgangsröð og því miður er hún alröng hjá ríkisstjórninni. Hún er komin inn á mjög varhugaverða stigu með þessu frumvarpi. En ég vona að það eigi eftir að fá góða og mjög mikla umræðu í þjóðfélaginu. Það er mikilvægt að okkur takist að setja löggjöf um þetta mikilvæga mál á þessu kjörtímabili. En ef einhver er að láta sig dreyma um að þetta verði grundvöllur einhverrar hrákasmíði um þennan mikilvæga málaflokk þá fer sá hinn sami villur vegar. En við erum tilbúin og mjög fýsandi þess að taka á þessu mikilvæga og spennandi verkefni.