132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:27]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi andsvars míns óska eftir góðu samstarfi við hv. þm. Jóhann Ársælsson í iðnaðarnefnd í þeirri miklu vinnu sem fram undan er við það frumvarp sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur lagt fram.

Hæstv. forseti. Ég vil fá það á hreint í þessari umræðu, af því að verið er að ræða um að ríkisstjórnin sé að einkavæða vatnið og hefta aðgang almennings að vatnsnotkun hér á landi, hvort það sé ekki sameiginlegur skilningur minn og hv. þingmanns að lög um vatnsveitur sveitarfélaga kveði afdráttarlaust á um að það sé skylda sveitarfélaganna að veita öllum íbúum sínum, almenningi, heimilum og fyrirtækjum aðgang að vatni.

Kveðið er skýrt á um það, með leyfi hæstv. forseta, í 1. grein:

„Í þéttbýli skulu sveitarfélög starfrækja vatnsveitu í þeim tilgangi að fullnægja vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja, þar á meðal hafna, eftir því sem kostur er, nema í þeim tilvikum sem um ræðir í 3. mgr. þessarar greinar og í 4. gr.“

Í lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, í 15. grein, kemur skýrt fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Sveitarfélag skal hafa forgangsrétt til nýtingarleyfa vegna grunnvatns innan marka sveitarfélagsins vegna þarfa vatnsveitu sem rekin er þar.“

Þetta er nokkuð afdráttarlaust, hæstv. forseti, og ég vil heyra hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni hvort það sé ekki ljóst, þó að þessum lögum verði breytt, að aðgengi almennings að vatnsnotkun og frjáls för um vötn og annað slíkt — það er ein breyting sem gerð var núna á milli þessara tveggja þinga — hvort það standi ekki allt saman. Ég mundi vilja heyra sjónarmið hans í þessum efnum.