132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:33]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þingmaður færast töluvert mikið í fang ásamt hæstv. ráðherra þessara mála, við að halda því fram fyrir fram að dómaframkvæmd geti ekki breyst vegna breytinga á lögum í þá átt sem hér um ræðir. Ef laganefnd Lögmannafélagsins hefur áhyggjur og telur að orðalagið sem ég nefndi fyrr í ræðu minni sé til þess fallið að vekja vafa um markmið breytinganna þá held ég að hæstv. ráðherra og hv. þingmaður ættu líka að hafa áhyggjur af því.

Hæstv. ráðherra hefur að vísu svarað því til að hann sjái enga ástæðu til að gera neitt í málinu þótt að Lögmannafélagið hafi áhyggjur af þessu. En hv. þingmaður er formaður nefndarinnar og gæti haft af þessu áhyggjur og ætti að hafa. Ég tel ástæðu til að við förum vandlega yfir þessa þætti og ég fagna því að hv. þingmaður ætli að leggja mikla vinnu í frumvarpið. Ég lýsi því yfir að ég er tilbúinn að taka þátt í henni.

Ég vona að okkur verði gert kleift að fá allar upplýsingar um málið, að við fáum að skoða hverju við eigum von á vegna tilskipunarinnar frá ESB þannig að við getum horft yfir málið í heild. Það er ekki hægt að gera það öðruvísi. Ég tel að það sé full ástæða til að menn gefi sér ekki fyrir fram að þetta mál gangi fram í vetur, nema málið sé lengra komið í umhverfisráðuneytinu en komið hefur fram á þessum fundi.