132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:35]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Það fór eins og mig grunaði, að umræður hafa þróast á þann veg að nauðsynlegt er að hæstv. umhverfisráðherra sé viðstaddur þessa umræðu. Ég geri mér grein fyrir að umhverfisráðaherra var ekki hér í dag og sennilega með fjarvistarleyfi. Ég gerði því ekki athugasemd við það þegar umræðan hófst. En ég vil rifja upp að í fyrra, þegar 1. umr. um svipað frumvarp og nánast óbreytt frumvarp fór fram, var beðið um þetta og umhverfisráðherra var viðstaddur. Hann varð að vísu að fara áður en umræðunni lauk, sem við kvörtuðum yfir en við því var ekki mikið að gera. En þeim mun meiri ástæða er til þess að hæstv. ráðherra sé hér nú í framhaldi umræðunnar.

Við höfum beinlínis verið að tala um hver valdaskiptingin sé. Við höfum verið að tala um frumvarp sem nú hefur í tvígang verið sagt að liggi tilbúið í umhverfisráðuneytinu eða sé til í drögum í umhverfisráðuneytinu. Við höfum einnig talað um vatnatilskipun Evrópusambandsins sem samið er um milli EFTA og ESB. Þótt það sé að vísu ekki beinlínis á valdsviði umhverfisráðherra þá ætti hann að vita nákvæmlega hvernig það mál er statt en um það veit hæstv. iðnaðarráðherra greinilega ekki. Hæstv. iðnaðarráðherra setur fram um þessi tvö efni nákvæmlega sama orðalag í greinargerð sinni núna, í nóvember 2005, og hann gerði í desember 2004. Það er ekki boðlegt, forseti, að koma fyrir þingheim og hafa ekki á reiðum höndum upplýsingar um þetta mál.

Eins og ég sagði áðan vildi ég ekki tromma upp með þetta eins og einhverjar óeirðir þegar ljóst var að hæstv. umhverfisráðherra Sigríður Anna Þórðardóttir var fjarri á þessum þingdegi. En ég tel fulla ástæðu til þess, eftir því sem umræðan þróast, að umhverfisráðherra sé viðstödd á svipaðan hátt og var í fyrra, er hún ætlaði að vera til loka umræðunnar. Ég kalla þess vegna eftir því að annaðhvort verði umræðum hér hreinlega frestað — það er ekki mikið eftir af þessum vinnudegi — og þær hefjist síðar þegar umhverfisráðherra getur verið viðstödd eða að reynt verði að hafa upp á umhverfisráðherra og hún beðin um að koma til umræðunnar ef hún mögulega getur, þann tíma sem eftir stendur af vinnudegi þingsins.

(Forseti (JóhS): Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að láta athuga hvort hæstv. umhverfisráðherra geti komið til þessa fundar. Annars vill forseti vekja athygli á því að gert er ráð fyrir að ljúka þessum fundi um sjöleytið. Enn eru fjórir hv. þingmenn á mælendaskrá þannig að forseti gerir ráð fyrir að framhald verði á þessari umræðu og þá gefist tækifæri til að hæstv. umhverfisráðherra komi til umræðunnar, ef hæstv. ráðherra hefur ekki tök á því nú.)