132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:40]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er einhver misskilningur í gangi (KolH: Já, þetta er misskilningur, já.) ef hv. þingmenn telja að frumvarpið geti heyrt undir fleiri en einn ráðherra. Það er bara þannig í Stjórnarráði Íslands að aðeins einn ráðherra fer með hvert mál fyrir sig. Með þetta mál fer iðnaðarráðherra. (Gripið fram í.)

Ef hv. þingmenn telja að ekki sé hægt að leggja fram frumvarp nema að bíða eftir einhverjum tilskipunum frá Evrópusambandinu þá er það ekki þannig. Hér fer fram sama umræðan og fór fram í vor, að hluta til. Samt liggur fyrir að það er samkomulag við stofnanir umhverfisráðuneytisins um frumvarpið. (KolH: Hvar liggur það fyrir?) Hv. þingmenn verða bara að trúa því sem ég segi um að náðst hafi samkomulag. (MÁ: Þeir trúa því ekki.) Nei, það er leitt.

(Forseti (JóhS): Ekki frammíköll.)

Það er mjög leitt ef því er ekki trúað sem hér er sagt en svona er þetta. Að sjálfsögðu er það mér að meinalausu að hæstv. umhverfisráðherra sé í salnum þegar þessi umræða fer fram. Það er hins vegar þannig að þetta frumvarp snýst um nýtingu vatns og verndun vatns er annað mál. Við erum ekki beinlínis í vandræðum á Íslandi hvað vatnið varðar. Það er ein af okkar sterkustu og mestu auðlindum. En það getur vel verið að einhverjir séu þeirra skoðunar að það eigi alls ekki að nýta vatnið eins og við höfum gert í gegnum áratugina. Meðal annars er það vegna þeirrar nýtingar að Íslendingar búa við þau lífskjör sem raun ber vitni.

Það getur vel verið að einhverjir séu annarrar skoðunar en engu að síður verðum við að hafa lög í landinu um nýtingu vatns. Um það snýst málið. Ég er ekki þeirrar skoðunar að við getum ekki lagt fram frumvarp á Alþingi nema að borist hafi tilskipun frá Brussel sem reki okkur til þess. Þetta er frumvarp sem er unnið að okkar frumkvæði til að breyta lögum frá 1923 og þótt fyrr hefði verið.

(Forseti (JóhS): Forseti vill óska eftir því að hv. þingmenn sem kveðja sér hljóðs undir liðnum um fundarstjórn forseta fari ekki í efnislega umræður um málið sem hér er á dagskrá.)