132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:44]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra sagði að mál heyrðu bara undir eitt ráðuneyti. Það er út af fyrir sig rétt. En nú hagar svo til að það er verið að setja lög á grundvelli eins lagabálks. Þau lög eru orðin nokkuð mörg. Ætli það séu ekki fjórir eða fimm lagabálkar sem koma í kjölfarið á þessum lögum frá árinu 1923? Og þau heyra undir fleiri en eitt ráðuneyti.

Það hlýtur að vera krafa Alþingis og þingmanna að menn hafi heildaryfirsýn yfir það sem er að gerast þegar svo hagar til sem núna. Mér finnst þess vegna full ástæða til að menn hlusti á hæstv. umhverfisráðherra, að hún mæti til umræðunnar og komi á framfæri því mikilvægasta sem um er að vera í því ráðuneyti vegna þessarar lagasetningar. Þá kemur skýrt fram hvort ástæða er til að halda að frumvarpið sem hér er til umræðu og frumvarp sem til umfjöllunar er í umhverfisráðuneytinu geti skarast með einhverjum hætti. Þar með kemur í ljós hvort ástæða sé til að t.d. fresta umfjöllun um þetta mál þar til menn hafa í höndum frumvarpið sem er í smíðum í umhverfisráðuneytinu. Það eru m.a. þau atriði sem við þurfum að ræða í sölum Alþingis.

Ég held að því miður sé staðan sú sama og í fyrravetur, að menn hafi ekki undirbúið málin nægilega vel. Það þurfa menn að gera sameiginlega og þótt menn telji sig búa hvorn á sínum bænum í þessum ráðuneytum þurfa þeir að ná samstöðu um það þegar hluta á sundur heilan lagabálk eins og þennan og klára að setja löggjöf á grundvelli hans. Það þarf að gerast þannig að menn hafi yfirsýn. Hún er ekki fyrir hendi núna.