132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:51]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Vegna athugasemda hæstv. ráðherra verð ég, sem hóf umræðuna, að ítreka að í fyrsta lagi féllst hæstv. umhverfisráðherra á það í fyrra, sami umhverfisráðherra og nú situr, að vera viðstödd umræðuna. Hún fór áður en henni lauk, aðeins af því að hún átti brýnt erindi burtu og umræðan hafði dregist lengur en hún átti von á. Það olli því að hún gat t.d. ekki svarað fyrirspurnum sem fram voru bornar og hefði þurft að svara í þeirri umræðu.

Í öðru lagi háttar svo til, þannig að þinglegt orðalag sé notað, að hæstv. iðnaðarráðherra getur ekki svarað þeim spurningum sem fram eru bornar. Hún hefur ekki treyst sér til að svara spurningunum um viðræður ESB og EFTA sem hún segir í athugasemdum, eins og í fyrra, að ætti að ljúka eftir næstu áramót. Eru það áramótin 2004–2005 sem átt var við? Eru það áramótin 2005–2006 sem átt er við eða eru það einhver önnur áramót? Eru það bara einhver næstu áramót? Þessu hefur hæstv. iðnaðarráðherra ekki svarað.

Hæstv. ráðherra hefur ekki heldur svarað því hvað líði frumvarpi sem liggur fyrir í drögum, núna væntanlega og líka 6. desember í fyrra. Þar að auki hefur ráðherra sagt að Umhverfisstofnun hafi verið beygð til hlýðni eftir að hún kom í fyrra með ákaflega ítarlega gagnrýni á þetta frumvarp. Ég verð að segja að ef Umhverfisstofnun segir annað núna um nánast óbreytt frumvarp sem hér liggur fyrir en hún sagði um frumvarpið í fyrra þá hafi annaðhvort gerst að ráðherrar hafa farið þannig með embættismenn að ekki er sómi að eða að Umhverfisstofnun hafi gerst sek um að ... (Forseti hringir.)

(Forseti (JóhS): Forseti vill ítreka að undir þessum lið skal ekki rætt efnislega um það frumvarp sem hér er á dagskrá heldur eingöngu um fundarstjórn forseta.)

Ég hlíti orðum forseta og hrósa henni fyrir viðbrögð sín í þessu máli, sem ég tel hárrétt.