132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Aðbúnaður og aðstæður aldraðra á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

[13:37]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi en umræðan hefur stundum risið hátt undanfarið.

Ég byrja á Sólvangi en undirbúningur að endurbótum þar er hafinn og hefur staðið um hríð. Sólvangur hefur að beiðni minni sett fram hugmyndir um fækkun rýma á stofnuninni. Þær ganga að mínum dómi ekki nógu langt og ég hef því farið fram á að kannað verði hvort ekki mætti fækka vistmönnum á Sólvangi á næstu vikum og mánuðum allt þangað til þeir verða á bilinu 55–60. Er það von mín að þannig verði núverandi húsnæði og aðstaða gerð boðlegri fyrir þá vistmenn sem þar búa en þær hafa ekki verið nægilega góðar í þeim skilningi að menn hafa ekki getað haft í kringum sig persónulega muni. Aðstaða til heimsókna aðstandenda hefur verið slæm. Á sjúkradeildum hefur heilabiluðum og þeim sem þjást af geðrænum kvillum verið blandað saman með almennum vistmönnum. Það er ekki ásættanlegt.

Samkvæmt fyrirmælum mínum verður þegar í stað gengið þannig frá málum með endurbótum að heilabiluðum verður komið fyrir á sérstakri þjónustueiningu þar sem þeir fá þjónustu við hæfi og mun stærð þeirra eininga taka mið af tillögum forsvarsmanna á Sólvangi.

Á síðasta ári voru tvö fimmbýli á Sólvangi en svo er ekki lengur, 19 þríbýli og fimm einbýli. Með ákvörðun minni vonast ég til þess að innan árs verði einbýlin áfram fimm, þríbýlin fyrir bí og þeim öllum breytt í tvíbýli. Með því sé ég fyrir mér að við gerum í þessum áfanga eins gott úr aðstæðum á Sólvangi og hægt er á eins skömmum tíma og mögulegt er.

Rétt er að það komi fram að ég hef skipað nefnd sem hefur það hlutverk að koma með tillögur um uppbyggingu heildrænnar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði í samvinnu við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði, enda er ekki hægt að koma endurbótum á Sólvangi nema skoða öldrunarþjónustu í Hafnarfirði frá ýmsum hliðum. Má í því samhengi nefna stuðning við aldraða sem búa heima og hvernig ávinningur af sameiningu Sólvangs og St. Jósefsspítala muni skila sér í bættri þjónustu við aldraða. Þessi leið er farin að ráði þeirra á sviði öldrunarmála sem best þekkja til, sem leggja áherslu á nákvæma útfærslu á þjónustunni í Hafnarfirði og að hún fari ekki fram fyrr en að lokinni heildrænni stefnumótun og það er einmitt það sem við erum að gera fyrir utan að ráðast í beina fækkun rýma.

Eitt af því sem mér finnst sjálfsagt að kanna og vel komi til greina er að Sólvangur og Hrafnista taki upp samstarf við þjónustuna við aldraða í Hafnarfirði. En ég veit að forsvarsmenn Hrafnistu hafa boðið Hafnarfjarðarbæ upp á samstarf í öldrunarmálum.

Spurt er hvernig ég hyggist bæta aðbúnað og aðstæður eldri borgara landsins á næstu missirum og hvort ég muni standa fyrir breytingu á daggjaldakerfinu á einhvern hátt. Á Íslandi höfum við í öldrunarþjónustunni verið mjög stofnanamiðuð sem kemur fram í þeirri staðreynd að hér er boðið upp á fleiri rými miðað við þúsund íbúa en annars staðar á Norðurlöndum. Frá þessari stefnu verðum við að hverfa um leið og við mætum þörf fyrir hjúkrunarrými. Það sem við þurfum að hafa að leiðarljósi til framtíðar er að gera stofnanirnar sveigjanlegri, gera rekstur þeirra sveigjanlegri og við þurfum að byggja þjónustuna upp með það í huga að tryggja sjálfræði og sjálfstæði einstaklinganna eins og frekast er kostur.

Það sem nú er í forgangi er að byggja tvö hjúkrunarheimili í Reykjavík þar sem biðlistarnir eru lengstir. Nýlega skrifaði ég undir samkomulag við borgarstjórann í Reykjavík um hjúkrunarheimili í Sogamýri og undirbúning að samkomulagi um hjúkrunarheimili á svokallaðri Lýsislóð. Á sama tíma erum við að byggja upp ný rými til að mæta þeirri þörf sem er fyrir hendi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Er verið að breyta þeim eldri hjúkrunarheimilum sem eru fyrir hendi, fækka fjölbýlum og fjölga einbýlum.

Jafnframt verður að draga það fram í umræðunni að starfshópur á vegum ríkisstjórnarinnar og aldraðra er að störfum sem hefur verið að fara yfir samkomulagið sem gert var 2002 og efni þess. Fyrir liggur að nota þá aðferðafræði sem notuð var þá, samráð stjórnvalda og eldri borgara um áherslumál í þjónustu við aldraða á næstu missirum. Samkomulagið frá 2002 hefur áorkað miklu og ég vil að sú vinna sem í gangi er nú geri slíkt hið sama.

Í umræðunni um öldrunarmálin hefur því verið haldið fram að daggjöldin sem heimilin eru flest rekin fyrir dygðu skammt og þau hafa ekki breyst eins og önnur viðmið. Það er ekki rétt. Daggjald samkvæmt RAI-matinu hækkaði um fjórðung eða 24,5% á tímabilinu 2002–2005. Á sama tíma hækkaði neysluvísitalan um 9,6% og launavísitalan um 17,9%.

Mun heilbrigðisráðherra sætta sig við tilvist tvöfalds kerfis í velferðarkerfinu þar sem fólk neyðist til að kaupa sér umönnunarþjónustu inn á öldrunarstofnanir og heim til sín fyrir eigin kostnað? Svarið við spurningunni um hvort heilbrigðisráðherra sætti sig við tvöfalt kerfi í velferðarkerfinu þar sem fólk neyðist til að kaupa sér umönnunarþjónustu inn á öldrunarstofnanir er einfalt nei.