132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Aðbúnaður og aðstæður aldraðra á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

[13:49]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Félagsleg þjónusta og stuðningur við að aldraðir geti búið heima sem lengst er borin uppi af sveitarfélögunum. Þau standa sig vel. Þegar heilsubilun veldur aðkallandi þörf á hjúkrunarrými reynir á ríkisstjórnina. Hún stendur sig illa.

Á höfuðborgarsvæðinu er hlutfall aldraðra mjög hátt. Í Suðvesturkjördæmi, fjölmennasta kjördæminu, er ekki fyrirhugað að taka nein ný hjúkrunarrými í notkun fram til ársins 2008 samkvæmt nýlegu svari heilbrigðisráðherra til Valdimars L. Friðrikssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Allan starfstíma sinn hefur ríkisstjórnin lofað úrbótum á Sólvangi. Þar þarf að byggja við eða fækka vistmönnum. Ef fækka á vistmönnum þarf rými annars staðar. Allt að fjórir einstaklingar eru saman í herbergi á Sólvangi. Það eru jafnvel bara 20 sentimetrar á milli rúma. Aðstaða til persónulegra samskipta við ástvini verður afar bágborin við slíkar aðstæður.

Vandinn er tvíþættur; að leysa bráðan húsnæðisvanda Sólvangs og fjölga dvalar- og hjúkrunarrýmum. Bæjarstjórnin hefur einróma boðið samstarf um ólíkustu lausnir, líka að taka við málaflokknum sem tilraunasveitarfélag eins og Akureyri. En ekkert gerist. Undirbúningur er ekki hafinn. Það er enn verið að skoða eins og síðastliðin tíu ár.

Virðulegi forseti. Það er skörun í þessum málaflokki. Best væri að hann væri á einni hendi. Verst er ráðleysið. Við erum að tala um fólkið sem lagði grunn að þeirri auðlegð sem við búum við í dag. Ekki er hægt að koma hér og segja: Við ætlum enn einu sinni að setja á nefnd.