132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Aðbúnaður og aðstæður aldraðra á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

[14:00]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún er viðamikil og ég verð að tala í stikkorðum. Ég tel að staðhæfingar um tvöfalt kerfi séu mjög orðum auknar. Ég tel að það sé mesta nauðsyn að tryggja ákveðna skilgreinda þjónustu á öllum öldrunarheimilum og þá verður tvöfalt kerfi ekki staðreynd.

Ég vil taka það fram um daggjöldin að auðvitað þurfa þau alltaf að vera í endurskoðun. Við erum í viðræðum við forustumenn heimilanna um þessi mál. Þær viðræður hafa verið stöðugt í gangi. Við þurfum alltaf að vera með þetta í endurskoðun. En daggjöldin hafa hækkað frá árinu 2002 úr 9 milljörðum í 14,5 milljarða eða um 65%. Það eru staðreyndir málsins. Síðan 2004 hafa verið byggð 177 rými og í byggingu er 71 rými og í undirbúningi 200 rými. Þetta eru staðreyndir málsins. Í heimaþjónustu, í heimahjúkrun, hefur frá árinu 2003 verið varið 150 millj. kr. til viðbótar við það sem var áður. Ég varð fyrir vonbrigðum þegar ég las skýrslu Ríkisendurskoðunar og sá að á sama tíma hafði þjónusta sveitarfélaganna minnkað. Það er staðreynd í skýrslunni. En við höfum verið að samþætta þessa þjónustu í Reykjavík.

Það er rangt að undirbúningur sé ekki hafinn á Sólvangi. Það hefur verið ákveðið að innrétta þar eina hæð og bæta hana til að hægt sé að hafa sérgreinda deild fyrir heilabilaða sjúklinga. Það er staðreynd málsins.

Að öðru leyti þakka ég þessa umræðu sem var málefnaleg og áreiðanlega (Forseti hringir.) þessu málefni til gagns.