132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Vandi rækjuiðnaðarins.

[14:13]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Rekstrarvandi rækjuiðnaðarins er mikill og ég tek undir þau orð hæstv. ráðherra að þó hann sé mikill þá er hann samt iðnaður sem á að vera hér áfram. Við eigum að brúa það erfiða bil sem nú er til að hann geti verið hér áfram blómleg atvinnugrein.

Þrír menn hafa sent okkur þingmönnum bréf um vanda rækjuiðnaðarins sem ég vil leyfa mér að vitna í. Það eru Agnar Ebenesersson, framkvæmdastjóri Bakkavíkur í Bolungarvík, Elías Oddsson, framkvæmdastjóri Miðfells á Ísafirði, og Ólafur Bjarni Halldórsson, stjórnarformaður Meleyrar á Hvammstanga. Þeir eru allir kunnir og þekktir atorkumenn sem hafa staðið fyrir mikilvægum atvinnurekstri í rækju. Þeir segja, með leyfi forseta:

„Vandi rækjuiðnaðarins á Íslandi er tvíþættur, í fyrsta lagi heimagerður vandi sem er gengisþróun íslensku krónunnar og í öðru lagi markaðsvandi sem stafar m.a. af offramboði og brotum á viðskiptareglum.“

Svo segir í þeirra bréfi, með leyfi forseta:

„Styrking krónurnar á þessu rúma ári eða frá því að Seðlabankinn hóf vaxtahækkunarferli sitt nemur nú rúmum 18%.“ — Það er 18% breyting á einu ári. — „Ljóst er að það eitt hefur kippt rekstrargrundvelli undan rækjuiðnaði sem var veikur fyrir eftir neikvæða verðþróun á heimsmarkaði undanfarin sjö ár.“

En þeir nefna fleiri atriði, frú forseti:

„Einnig er vert að nefna hækkandi flutningskostnað. Nú síðast í september tilkynnti annað af stærri flutningafélögum landsins um hækkun á flutningum innan lands vegna áhrifa olíuverðshækkunar og breytingar á þungaskattskerfi. Breytingin átti að leiða til lækkunar á lengri leiðum en virðist hafa þveröfug áhrif.“ — Þetta er líka stjórnvaldsaðgerð.

Ég vil líka minna á orð sveitarstjórans í Súðavík sem minnti á að bara raforkubreytingin, breytingin við markaðsvæðingu raforkunnar, leiddi til nærri tveggja millj. kr. hækkunar á rekstri rækjuverksmiðjunnar í Súðavík. (Forseti hringir.) Það er því svo víða sem stjórnvöld höggva þessa atvinnugrein.