132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Vandi rækjuiðnaðarins.

[14:16]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Vandi þessarar atvinnugreinar er ærinn og vissulega þörf á því að taka hann til umræðu hér í þingsölum og fyllsta ástæða til þess fyrir hæstv. ríkisstjórn að taka til hendinni við að greina þá möguleika sem eru inni í myndinni til þess að bæta úr í skilyrðum atvinnugreinarinnar. Það verður ekki við það unað að svo verði kreppt að greininni að hún leggist af. Svo alvarleg er staðan nú að það er vissulega vá fyrir dyrum og hætta á því að slíkt gerist. Það er hlutverk hæstvirtra ráðherra að hafa forustu um að móta tillögur um úrlausn á þessum vanda og ég vænti þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra komi innan fárra vikna með úrræði sem við teljum að muni bæta úr að þessu leytinu til.

En málshefjandi gat hér um að vandinn væri þríþættur og að eitt af því sem hann nefndi væri heimagerður vandi. Ég vil nefna nokkur atriði og fá svör frá hv. málshefjanda um hvað það var sem hann lagðist gegn í þeim atriðum sem móta þær aðstæður sem hann kallar heimagerðan vanda.

1. Var hann andvígur ákvörðuninni um að virkja Kárahnjúkavirkjun á Austurlandi og byggja þar álver?

2. Var hann andvígur áformum iðnaðarráðherra, sem ég veit ekki annað en hann styðji, um að byggja annað álver á Norðausturlandi?

3. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar og Alþingis um að taka hér upp 90% lánveitingar til fólks sem er að kaupa sér íbúðarhúsnæði má vissulega kalla heimagerðan vanda, en lagðist hv. þingmaður gegn því?

4. Einkavæðing bankanna, sem ég veit ekki til að hann eða hans flokkur hafi lagst gegn. Það má hugsanlega segja að áhrifin af því skapi hluta af þeim vanda sem menn eiga við að glíma, en hverju af þessu sem hann kallar heimagerðan vanda lagðist hann gegn? Hvað hefði hann gert öðruvísi? (Forseti hringir.) Hann hefði, ef ég þekki rétt, virðulegi forseti, ekki (Forseti hringir.) staðið í neinum öðrum sporum en við gerum nú.