132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Vandi rækjuiðnaðarins.

[14:18]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Kristjáni Möller, fyrir að taka þetta mál hér til umræðu. Oft er þörf en nú er nauðsyn. Það ber auðvitað að taka málið alvarlega eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra endurtók svo margoft í ræðu sinni, full ástæða til þess og þótt fyrr hefði verið.

Það er einfaldlega sú staða sem rækjuiðnaðurinn býr við, annars vegar sú gengisþróun sem hlotist hefur m.a. af stefnu Seðlabankans sem ég held að sé nú gengin sér til húðar — það hljóta allir að sjá að hún getur ekki varað hér áfram öðruvísi en að setja útflutningsgreinarnar á hausinn — og hins vegar er það verðlækkun afurðanna. Við höfum lítil tök á því að hafa áhrif á verðbreytingar á mörkuðum fyrir afurðirnar og við höfum líka lítil tök á því að hafa áhrif á mikla veiði við Grænland og Kanada.

Það er einnig staðreynd að hér á landi er ekki rekin útgerð núna við rækjuveiðar og þar er auðvitað olíuverðsþátturinn mjög afgerandi þáttur ásamt því lága verði sem iðnaðurinn neyðist til að greiða í þessari stöðu fyrir iðnaðarrækjuna.

Stjórnvöld þurfa m.a. að fara að líta til þess hvort Seðlabankinn standi ekki frammi fyrir því að fara að breyta stefnu sinni. Ég held að áframhaldandi gengisstefna Seðlabankans muni ganga af útflutningsatvinnuvegunum dauðum og það á sérstaklega við um rækjuna vegna þeirra aðstæðna sem ég nefndi áðan. Það þarf líka að líta til þess hvort hægt er að laga rekstrarskilyrði þessa iðnaðar, m.a. í sambandi við raforkuverð, hækkun flutningskostnaðar og önnur þau atriði sem stjórnvöld hafa vald á.