132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Vandi rækjuiðnaðarins.

[14:20]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það dylst engum að mikill vandi steðjar að rækjuiðnaðinum í landinu og allir sem hér hafa talað hafa farið yfir það af hverju sá vandi er og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það.

En ég verð að segja eins og er að ég varð fyrir talsvert miklum vonbrigðum með svör hæstv. sjávarútvegsráðherra við þeim spurningum sem hér voru lagðar fram. Til að byrja með sagði hæstv. ráðherra að að sjálfsögðu yrðum við að taka málið alvarlega og föstum tökum. Hann fór yfir fækkun verksmiðja, hvernig hún hefur átt sér stað, og fór síðan yfir það hverju væri um að kenna. Það væri ekki bara gengið heldur hefði orðið aflabrestur í innfjarðarrækjunni og þar nefndi hann að aflabætur hefðu komið í staðinn. Hann nefndi einnig að aflabrestur hefði orðið í úthafsveiði á rækju en þar svaraði hann engu um aflabætur. Beinni spurningu var beint til hæstv. ráðherra um það af hverju hann nýtti ekki heimild sem hann hefur í 9. grein í lögum um stjórn fiskveiða til að bregðast við því sem er að gerast í rækjuiðnaðinum. Hann hefur til þess fulla heimild í lögum. Hæstv. ráðherra svaraði því að það hefði ekki verið rætt, ekki hefði verið rætt um að beita því eina úrræði sem lögin um stjórn fiskveiða setja í hendurnar á hæstv. ráðherra til að bregðast við bæði fyrirsjáanlegum og ófyrirsjáanlegum vanda.

Ef ekki á að ræða það varðandi vanda rækjuiðnaðarins, hvenær þá? Það segir í greininni að þessi 12 þús. tonn af óslægðum botnfiski séu til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda. Það hafa aldeilis orðið verulegar breytingar á aflamarki í rækju. Hvernig í ósköpunum stendur á því að það er ekki rætt af hálfu hæstv. sjávarútvegsráðherra og í ráðuneyti sjávarútvegsmála hvort rétt sé að bregðast við með þeim tækjum sem eru í lögum? Það er ekki rætt.

Það er ekki boðlegt að koma upp í pontu á Alþingi og svara svona og ég verð að benda hæstv. ráðherra á það í fullri vinsemd að þetta er ekki boðlegt þrátt fyrir að (Forseti hringir.) ráðherrann sé nýtekinn til starfa.