132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Vandi rækjuiðnaðarins.

[14:22]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á vanda rækjuiðnaðarins. Það verður þó að taka fram að það hefur dregist úr hömlu vegna þess að þingflokkur hv. þm. Kristjáns Möllers mat það svo að vandamál sjávarútvegsins mættu bíða vegna annarra mála sem þeim þóttu merkilegri. Reyndar fróðlegt að skoða þann lista eins og hann hefur verið hér í haust.

Hæstv. forseti. Vandi rækjuiðnaðarins er margþættur. Að honum steðjar vandi vegna óhagstæðrar gengisþróunar eins og öðrum útflutningsgreinum, en fleira kemur til. Starfsmenn Byggðastofnunar fóru í vettvangsleiðangur um Vestfirði og Norðurland og heimsóttu m.a. rækjuvinnslur. Þar kom fram að vandi þeirra er mismikill og af misjöfnum toga. Eins og ráðherra kom hér að áðan er auk gengismála um að kenna algjörum aflabresti á Íslandsmiðum, hærra olíuverði og lægra hráefnisverði sökum meiri samkeppni. Það er þó ekki einhlítt því að sumar rækjuvinnslur hafa tiltölulega trausta sölusamninga. Byggðastofnun hefur fullan vilja til þess að koma til aðstoðar en er býsna þröngur stakkur skorinn, bæði koma þar til ósveigjanlegar og þröngar reglur sem stofnunin vinnur eftir en auk þess hefur breyting á hinum almenna lánamarkaði leikið stofnunina grátt fjárhagslega. Það er þó ljóst að með einhverjum hætti verður stofnunin að koma að málum á næstunni. Bæði er þar um fjárhagslega hagsmuni stofnunarinnar að ræða en ekki síður er hér um mikinn vanda að ræða í þeim sveitarfélögum þar sem rækjufyrirtæki hafa lokað.

Ég fagna því mjög að sjávarútvegsráðherra hefur skipað starfshóp til að kanna stöðu og horfur í rækjuiðnaði. Eins og ljóst má vera er staðan alls ekki einföld og verður ekki leyst með patentlausnum. Rækjuiðnaðurinn er mjög hátæknivæddur og ætti við þokkalega eðlilegar aðstæður að vera mjög sterk atvinnugrein. Við skulum minnast þess að rækjuútflutningur var 10% í heildarverðmæti sjávarfangs á síðasta ári.

(Forseti (SP): Forseti vill beina því til hv. þingmanna að þeir gefi (Gripið fram í: Og ráðherra.) öðrum hv. þingmönnum hljóð. )