132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Vandi rækjuiðnaðarins.

[14:27]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er okkur öllum kunnugt, hv. alþingismönnum, að blikur eru á lofti í rekstri rækjuiðnaðar hér á landi. Nær öll ytri skilyrði atvinnugreinarinnar eru óhagstæð, óhagstæð gengisþróun, lágt afurðaverð, hár eldsneytiskostnaður og erfiðleikar í veiðum. Þetta hefur leitt það af sér að hundruð starfa hafa tapast vítt og breitt um landið vegna þessarar þróunar.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir er þessum útgerðaraðilum, rækjuiðnaðinum hér á landi, gert að greiða sérstakt auðlindagjald, veiðigjald, þrátt fyrir allar þessar erfiðu ytri aðstæður greinarinnar. Það er náttúrlega óásættanlegt að þessi iðnaður sé sérstaklega skattlagður umfram aðrar atvinnugreinar í landinu og við þessu þarf að bregðast. Það eru mörg sveitarfélög og margir byggðakjarnar hringinn í kringum landið sem eiga í miklum erfiðleikum vegna þessarar þróunar.

Þá erum við komin að skyldu stjórnvalda. Við viljum kenna okkur við byggðastefnu og byggðakvóti er að sjálfsögðu eitt af þeim tækjum sem við getum beitt vegna þeirra aðstæðna sem upp hafa komið. En það eitt og sér er ekki nóg. Við þurfum að fjölga atvinnutækifærum í hinum dreifðu byggðum og ég vil fagna því sérstaklega að nú verður varið miklum fjármunum í tengslum við markaðsvæðingu Símans í að byggja upp atvinnu og nýsköpun á landsbyggðinni. Það er mjög mikilvægt að við fjölgum burðarstoðum í þeim samfélögum sem þarna um ræðir. Við þurfum á því að halda vegna þess að þessar byggðir glíma við mjög mikla erfiðleika nú um þessar mundir og ríkisstjórninni ber og Alþingi ber að standa vörð um grundvöll þessara byggða og því verðum við að veita fé til uppbyggingar í nýsköpun og eflingu atvinnu í þessum byggðarlögum.