132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Vandi rækjuiðnaðarins.

[14:29]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Nokkrir hv. stjórnarandstöðuþingmenn hafa svo sem farið ágætlega yfir stöðuna hvað varðar rækjuiðnaðinn í landinu í ræðum sínum hér á undan mér og ég ætla ekki að fara að endurtaka það hér í þessum ræðustól. Mig langar þó til að vekja athygli hv. þingmanna á því að vandamál í rækjuiðnaði eru í fleiri löndum en á Íslandi um þessar mundir. Færeyski rækjuflotinn hefur horfið núna á örfáum missirum. Í Noregi eru þeir að binda rækjutogarana núna. Enginn rækjuleiðangur var farinn í Barentshafið í ár til að mæla stofnstærð rækju — leiðangrar sem voru farnir árlega allt fram á þennan dag — vegna þess að þarna hefur líka orðið hrun í rækjuiðnaði og rækjuveiðum vegna lágs verðs fyrir afurðir, vegna hás olíuverðs, þannig að það er ekki bara hér á landi sem skilyrðin eru slæm. Hins vegar eru skilyrðin hér á landi verri, stiginu verri en í nágrannalöndunum vegna gengisins. Ég held að það hljóti allir að geta verið sammála um það og ekki síst útgerðarmenn. Þeir hafa bent á það.

Það sem gerðist hér var það að ríkisstjórnin dró á sínum tíma saman eldivið í mjög myndarlegan bálköst með því að ákveða það að fara út í stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi. Síðan var kveikt í þeim bálkesti hér í fyrra. Það gerðist hér á Alþingi þegar lögin um 90% húsnæðislán voru samþykkt og bankarnir fóru síðan inn á húsnæðismarkaðinn. Þá fór allt úr böndunum. Þar hljótum við sem sitjum í þessum sal að bera þunga ábyrgð.

En allt er þetta, varðandi þróun rækjustofna og annað þess háttar, á margan hátt mjög merkilegt og athyglisvert mál. Það má til að mynda velta fyrir sér í þessu sambandi stækkun fiskstofna, til að mynda ýsustofnsins, hvaða áhrif það hefur haft á rækjuna og annað þar fram eftir götunum. Ég hygg að hið rétta, ef eitthvað er rétt sem hæstv. sjávarútvegsráðherra gæti gert núna, væri að rétta sjávarbyggðunum hjálparhönd með því að veita þeim auknar heimildir til að nýta sínar náttúruauðlindir í bolfiski, leyfa fólkinu að fara að bjarga sér á eigin forsendum. (Forseti hringir.) Það yrði skref í rétta átt.