132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[14:37]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á nokkrum lögum á sviði sifjaréttar. Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á þremur lagabálkum á sviði sifjaréttar, þ.e. á barnalögum, lögum um ættleiðingar og hjúskaparlögum.

Fyrst er að nefna breytingu á ákvæði barnalaga um skipan forsjár barna við skilnað foreldra og slit skráðrar sambúðar. Með frumvarpinu er lagt til að sameiginleg forsjá verði meginregla eftir samvistarslit foreldra, þ.e. foreldrar fari sjálfkrafa áfram sameiginlega með forsjá barns eftir samvistarslit nema að annað sé ákveðið. Með hinu síðastnefnda er átt við að foreldrar geti samið um að annað þeirra fari með forsjá barns, telji þeir það koma barninu betur. Jafnframt geti dómstóll að kröfu foreldris ákveðið að forsjáin verði í höndum annars hvors þeirra. Þannig er gengið út frá því að foreldri, sem ekki vill að forsjá verði áfram sameiginleg, geti komið í veg fyrir að svo verði, eins og gildandi réttur segir til um.

Breytingin sem lögð er til felur á hinn bóginn í sér að foreldrar þurfa ekki að gera sérstakan samning um forsjá barna sinna við samvistarslit, standi hugur þeirra til þess að fara saman með forsjána, heldur verður hún að sjálfkrafa áfram sameiginleg.

Ég tel að í þessu fyrirkomulagi felist ákveðin skilaboð til foreldra eins og bent hefur verið á, m.a. af forsjárnefnd, sem fjallað hefur um þessi mál og nánar er vikið að í greinargerð með frumvarpinu. Það eru skilaboð um mikilvægi þess að foreldrar vinni saman að málefnum barna sinna burt séð frá því hvernig þeirra eigin málefni eða sambúð kann að þróast.

Þær raddir hafa heyrst að rétt sé að fela dómstólum að dæma sameiginlega forsjá gegn vilja foreldris og forsjárnefnd telur þann kost vænlegan. Ég geri hins vegar ekki tillögur um breytingar í þá átt. Þar sem samvinna foreldra er lykilatriði, þegar sameiginleg forsjá er annars vegar, gefur augaleið að mikilvægt er að samkomulag ríki um þá skipan. Margvíslegar ástæður geta verið fyrir því að annað foreldri leggst gegn sameiginlegri forsjá. Án þess að tíunda það hér í löngu máli má nefna atriði eins og alvarlega sjúkdóma, og það að ofbeldi hafi einkennt sambúð foreldra. Í slíkum tilvikum kæmi sameiginleg forsjá barns gegn vilja annars foreldris tæplega til greina. Ég tel ekki rétt að dómara sé heimilað að taka fram fyrir hendur foreldra og dæma þau til sameiginlegrar forsjár.

Í nágrannalöndum okkar eru nokkrar umræður um heimildir dómara til að dæma sameiginlega forsjá þvert á vilja foreldra. Í Danmörku hefur 15 manna nefnd verið falið að kanna m.a. hvort ráðast eigi í slíkar breytingar á lögum. Verði niðurstaða nefndarinnar sú að dómara verði fengið þetta vald á hún jafnframt að koma með tillögur um hvernig eigi að leysa úr þeim ágreiningsmálum sem upp kunna að koma milli foreldra, t.d. um búsetustað barnsins. Í Svíþjóð hafa verið lagðar til breytingar á heimildum dómstóla til að dæma sameiginlega forsjá þar sem aðeins er dregið í land, ef svo má að orði komast, varðandi þær heimildir. Ég tel víst að hv. allsherjarnefnd muni kynna sér lagaþróunina og rök með og á móti sameiginlegri forsjá almennt og þar með einnig ræða hlutverk og umboð dómara.

Tvær aðrar breytingar eru lagðar til í frumvarpi þessu á barnalögum. Annars vegar er breyting á reglum varðandi þvingunarúrræði þegar umgengni er tálmað, hins vegar á lögsögureglum í meðlagsmálum. Breytingarnar á þvingunarúrræðunum lúta að því að gera stjórnvöldum kleift að ákveða að umgengni sem er tálmað af forsjárforeldri skuli þvinguð fram þrátt fyrir að umgengnismáli hafi verið skotið til ráðuneytisins til endurskoðunar eða eftir atvikum dómi héraðsdóms til Hæstaréttar, en reglur barnalaga standa vegi fyrir því í dag. Nokkuð hefur borið á gagnrýni á gildandi barnalög hvað þetta varðar. Enda þótt unnið hafi verið að því í ráðuneytinu með góðum árangri að stytta málsmeðferðartíma umgengnismála er ljóst að alllangur tími getur liðið frá því að sýslumaður úrskurðar í umgengnismáli þar til endanleg niðurstaða ráðuneytisins liggur fyrir. Ég tel því eðlilegt að leggja til fyrrnefndar breytingar.

Breytingar á lögsögureglum barnalaga fela í sér að heimildir íslenskra stjórnvalda til að úrskurða í meðlagságreiningsmálum eru nokkuð rýmkaðar. Þá eru enn ónefndar breytingar sem lagðar eru til á lögum um ættleiðingar og hjúskaparlögum. Ég tel ástæðulaust að hafa langt mál um þær en vísa þess í stað til athugasemda við þær í frumvarpinu. Þó er rétt að geta þess, að breytingarnar sem eru lagðar til í lögum um ættleiðingar lúta einkum að málsmeðferð. Jafnframt er lagt til að heimilt verði að framlengja gildistíma svokallaðs forsamþykkis fyrir ættleiðingu á erlendu barni, enda eru dæmi þess að biðtími væntanlegra kjörforeldra eftir barni, eftir útgáfu forsamþykkis, hafi verið lengri en tvö ár, sem er gildistími forsamþykkis samkvæmt ættleiðingarlögum.

Breytingarnar sem lagðar eru til á hjúskaparlögum felast annars vegar í því að einfalda málsmeðferð við innheimtu framfærslueyris og lífeyris til maka á grundvelli laganna, hins vegar í því að fella niður heimild til að kæra útgáfu skilnaðarleyfis til ráðuneytisins. Eðlilegra þykir, vegna þeirra afdrifaríku réttaráhrifa sem fylgja útgáfu skilnaðarleyfis og þá einnig ógildingu slíks leyfis, að dómstólar fjalli um mál sem upp kunna að koma þar sem efast er um gildi skilnaðarleyfis.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og annarrar umræðu.