132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[14:59]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á nokkrum lögum á sviði sifjaréttar. Ég á sæti sem áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd en vil taka það fram að ég sat þar ekki fyrir þremur árum þegar barnalögin fóru í gegn. Ég er því ekki sérstaklega vel kunnug málaflokkinum en ég verð að segja að í því máli sem hér er lagt fyrir nefndina er fólgin áskorun og eins og kom fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra er í mörg horn að líta. Það er margt sem nefndin þarf að skoða og þá bæði þessa skýrslu sem nefndin skilaði af sér og er yfirgripsmikil en einnig er nauðsynlegt að nefndin fari gaumgæfilega í saumana á norrænu löggjöfinni.

Eins og hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir gat um í ræðu sinni áðan eru Svíar að hluta til á leið til baka í þessu máli og það er nauðsynlegt að skoða hvers vegna það er. Eftir því sem ég kemst næst segja Svíar að í sænsku löggjöfinni hafi réttindi foreldra verið sett skör ofar en réttindi barnsins, þ.e. að miðpunkturinn í löggjöfinni hafi ekki snúist um velferð barnsins heldur velferð foreldranna eða það hvernig foreldrarnir líta á málin. Svíar segja núna að þær nýju reglur sem verið er að undirbúa, ef þær eru þá ekki þegar komnar til framkvæmda, eigi að ganga út á það að ef foreldrar geti ekki verið sammála um uppeldi barns þá skuli þeir ekki fá sameiginlegt forræði. Svíar virðast hafa lent í afar erfiðum forræðisdeilum foreldra sem hafa samt haft sameiginlega forsjá.

Þetta færir okkur auðvitað heim sanninn um það hversu erfið þessi mál eru. Það er erfitt að ætla sér með löggjöf að stýra því hvernig foreldrar annast uppeldi og umönnun barna sinna, það er sannarlega afar vandmeðfarið. Þess vegna tel ég að það sé mikil ögrun og áskorun fyrir nefndina að fara vel í saumana á þessu máli, skoða það vítt og vel ofan í kjölinn og ég treysti nefndinni fullkomlega til að gera það.

Það er auðvitað ekkert einhlítt í þessum málum. Það er afskaplega erfitt að alhæfa um þau því að hvert einasta tilvik er sérstakt. Það geta þeir sem hafa starfað í þessum geira, félagsfræðingar og sálfræðingar, vitnað um. Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar í þessum efnum. Mér er mjög minnisstætt viðtal við Rannveigu Guðmundsdóttur félagsráðgjafa. Hún átti samtal við Guðrúnu Guðlaugsdóttur, blaðamann Morgunblaðsins, um rannsókn sína sem fjallaði um líðan barna við skilnað foreldra séð með augum barnsins. Þetta viðtal birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 10. júlí sl. undir fyrirsögninni „Ekki gleyma okkur“ og er það tilvitnun í ummæli barns sem tók þátt í rannsókninni. Mér finnst þetta kallast svolítið á við það sem ég hef séð frá Svíunum um þennan fókus, þ.e. velferð barnsins verður alltaf að vera í brennipunkti. Við sem hlutlægur aðili í þessum málum, þ.e. löggjafinn, verðum að reyna að stýra löggjöfinni þannig að svo sé.

Þess vegna hef ég líka tilhneigingu til að gera athugasemd við orðfærið sem við notum þegar við fjöllum um þessi mál. Við tölum t.d. um umgengnisrétt, ég tel jafnvel að það orð sé í löggjöfinni okkar nú þegar. Ég hefði haft tilhneigingu til að nota ekki það orð en tala frekar um sameiginlegan umönnunarrétt. Við erum ekki að tala um umgengni sem slíka, sem er frekar ópersónulegt hugtak og í sjálfu sér ekki tilhlýðilegt að nota þegar við erum að fjalla um samskipti foreldra eða foreldris og barns. Mér finnst miklu eðlilegra að við tölum um umönnunarrétt en umgengnisrétt. Þetta er t.d. eitt af því sem ég kem til með að leggja til málanna í starfi nefndarinnar.

Aftur langar mig aðeins til að víkja að rannsókn Rannveigar Guðmundsdóttur sem sagt er frá í Morgunblaðinu í sumar. Hún segir í viðtalinu að hún hafi bæði rætt við börn og foreldra þeirra og í um helmingi þeirra tilvika sem hún rannsakaði var um sameiginlega forsjá að ræða en í hinum helmingnum hafði móðirin forsjána. Í rannsókn hennar var talað um að í helmingi tilvika væri um mjög litla samvinnu foreldra að ræða og það var víst óháð því forsjárfyrirkomulagi sem var til staðar. Í einu tilviki höfðu foreldrar ekki talað saman frá skilnaði þrátt fyrir sameiginlega forsjá. Hún segir líka að eftirtektarvert hafi verið að feður hafi talað um að þeir vildu vera meira með börnunum sínum en á sama tíma töluðu mæður um að þær vildu að feðurnir hefðu meira af börnunum sínum að segja, væru oftar í sambandi við þau en raun bæri vitni. Rannveig segir, og ég er sammála henni um það, að þetta megi túlka á þann veg að samskiptin séu hugsanlega ekki nægilega skýr. Báðir aðilar virðast vilja það sama en koma því ekki nægilega vel á framfæri.

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta litla dæmi úr niðurstöðum rannsóknar Rannveigar Guðmundsdóttur félagsráðgjafa segja meira en mörg orð. Þetta segir okkur að hér er um tilfinningaleg mál að ræða. Þetta eru málefni sem eru einstaklingsbundin og taka á grunngildum okkar. Auðvitað vitum við að það er afar sjaldgæft að fólk skilji í góðu. Yfirleitt skilur fólk af því að það gengur ekki upp að búa saman og ágreiningur er til staðar í sambúðinni. Það segir okkur að jarðvegurinn, þegar um skilnað er að ræða, er oft og tíðum ekki skapandi, ekki þægilegur til að búa börnum jákvæðar aðstæður. Það skiptir verulegu máli að við áttum okkur á því að þessi mál eru vandmeðfarin.

Rannveig Guðmundsdóttir segir í viðtalinu við Guðrúnu Guðlaugsdóttur að hennar meginniðurstaða sé sú að börn séu yfirleitt tiltölulega afskipt þegar foreldrar skilja. Hún segir jafnframt að aðstoðin sem börn og foreldrar fá sé tilviljunarkennd og fari eftir fjölskylduaðstæðum. Það er mjög alvarlegt mál ef sú aðstoð er tilviljunarkennd og ég held að við hljótum að þurfa að taka það til nánari skoðunar.

Það verður líka að hafa í huga að þegar foreldrar skilja eru þeir ekki í tilfinningalegu jafnvægi, þeir eru jafnvel í áfalli og auðvitað þarf að tryggja börnunum einhvers konar aðstoð og umhverfi svo að áfall þeirra verði sem minnst. Ég held að í öllu falli sé, eins og ég sagði áðan, um afar mikla áskorun fyrir allsherjarnefnd að ræða að takast á við þetta mál. Það er ekki einfalt. Það er erfitt að ætla sér að setja öll mál af þessu tagi undir einn og sama hattinn, eina og sömu löggjöfina. Nefndin lendir í því að búa sér til einhvers konar stiklur til þess að fara yfir þennan læk og ég satt að segja treysti henni alveg til þess, en ég er alveg viss um að það þarf að leggja talsverða vinnu í það að finna bestu leiðina.