132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[15:22]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á nokkrum lögum á sviði sifjaréttar og mig langar til að gera að umræðuefni breytingu á barnalögum, nr. 76/2003. Fyrir þinginu liggur þingmál frá þeirri sem hér stendur og nokkrum þingmönnum Samfylkingarinnar, eins og hefur reyndar komið fram, þeim hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, Ágústi Ólafi Ágústssyni, Katrínu Júlíusdóttur, Helga Hjörvar, Jóhönnu Sigurðardóttur, Jóni Gunnarssyni, Margréti Frímannsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni, um sömu breytingu á lögunum og hæstv. ráðherra leggur til, þ.e. að sameiginleg forsjá verði að meginreglu.

Forsaga þess að við leggjum þetta mál fram er sú að ég hef haft verulegan áhuga á þessum málum og lagði fram þingsályktunartillögu fyrir um það bil 7–8 árum um rétt barns til umgengni við báða foreldra sína og síðan í framhaldi af því nokkrar breytingar á barnalögunum. Auðvitað var það allt með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Allmargar af þessum breytingartillögum komu inn í breytingu á barnalögunum 2003 eftir að allsherjarnefndin tók tillöguna til skoðunar en ekki ákvæðið um að sameiginleg forsjá yrði meginregla. Ég lagði fram breytingartillögu við umræðuna um að svo yrði en hún var ekki samþykkt enda töldu menn ekki ástæðu til þess að hverfa frá þeirri skipan mála sem þá var, eins og komið hefur fram.

En nú hefur hæstv. ráðherra lagt til að þessi leið verði farin og ég er sammála því sem auðvitað sýnir sig í þessu þingmáli. Þetta er auðvitað niðurstaða sem hefur komið fram, m.a. hjá forsjárnefnd sem skilaði fyrst áliti sínu 1999 í áfangaskýrslu þar sem var fjallað um reynsluna af sameiginlegri forsjá hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum. Í þeirri skýrslu sagði að bæði í Finnlandi og Svíþjóð hefði sameiginleg forsjá verið gerð að meginreglu við skilnað foreldra og það varð niðurstaða nefndarinnar að rétt væri að feta í fótspor þeirra. Ein meginröksemd forsjárnefndar fyrir sameiginlegri forsjá sem meginreglu var sú að slíkt fyrirkomulag samrýmdist best 1. mgr. 18. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem Ísland hefur fullgilt. Þessi málsgrein í samningnum hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Aðildarríki skulu gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að sú meginregla sé virt að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska. Foreldrar eða lögráðamenn, ef við á, bera aðalábyrgð á uppeldi barns og því að barni sé komið til þroska. Það sem barninu er fyrir bestu skal vera þeim efst í huga.“

Við hv. þingmenn sem flytjum þessa tillögu sem er hér á þskj. 78, 78. mál þingsins — það er með lægra númer en þingmál hæstv. ráðherra — tökum undir þessa röksemd hjá forsjárnefndinni og leggjum þess vegna til að íslenska ríkið geri allt sem í þess valdi stendur til að tryggja sameiginlega ábyrgð foreldra á uppeldi barna sinna.

Við teljum líka að réttur foreldris til að fara með forsjá barns síns sé réttlætismál á sama tíma og það er réttlætismál fyrir barn að nú njóta forsjár foreldris síns, þótt foreldri geti vissulega fyrirgert þessum rétti sínum með því að bregðast skyldum sínum. Löggjafanum beri því að stuðla að því að réttur beggja foreldra sé tryggður svo sem framast er unnt. Réttur foreldris til að fara með forsjá barns er jafnframt tilfinningamál. Það skiptir máli fyrir foreldri tilfinningalega að hafa eitthvað að segja um framtíð barns síns. Sameiginleg forsjá tryggir rétt foreldra hvað þetta varðar að því marki sem unnt er. Það má ætla að sameiginleg forsjá sé til þess fallin að efla ábyrgðarkennd foreldra gagnvart barni og hvetja þá til að ná samkomulagi um ráðstafanir sem varða hagsmuni þess.

Ég er að vitna í greinargerð með þessu þingmáli okkar samfylkingarþingmanna þar sem við leggjum til sameiginlega forsjá sem meginreglu.

Eftir að barnalögum var breytt árið 2003 kom fram lokaskýrsla frá forsjárnefnd, þ.e. í mars 2005, og þar ítrekar nefndin fyrri tillögu sína um að sameiginleg forsjá verði meginregla við skilnað og sambúðarslit foreldra. Við töldum því ástæðu til að endurflytja það mál sem hér liggur fyrir. Vissulega þarf að skoða það frá öllum hliðum og ávallt með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Ég treysti hv. allsherjarnefnd til að gera það, ég á ekki sæti þar en ég treysti þeim ágætu þingmönnum sem þar sitja til að fara vel yfir málið. Ég óska hér með eftir því við forseta og þingið að þetta þingmál okkar um sameiginlega forsjá sem meginreglu fari til nefndarinnar og fái þar umfjöllun um leið og þingmál hæstv. ráðherra. Ég óska því eftir að það verði sett á dagskrá næsta fundar þar sem frumvörp verða til umræðu, ég geri ráð fyrir því að það verði nk. fimmtudag, og það fari þá órætt til nefndarinnar. Ég tel að þessari umræðu séu gerð það góð skil hér að ekki þurfi frekari umræðu um þetta þingmál en tel mikilvægt að nefndin hafi okkar þingmál einnig til umfjöllunar samhliða frumvarpinu frá hæstv. ráðherra.

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi þetta ekki lengra en frekari rökstuðningur er í greinargerð með þingmáli okkar um þessa breytingu á barnalögunum, þ.e. á 31. gr. laganna.