132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[15:39]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er um mjög jákvætt mál að ræða. Ég tel engu að síður að gaumgæfa þurfi þetta mál mjög í allsherjarnefnd. Þeir þættir sem ég tel að þurfi að fara rækilega yfir er staða foreldra og þá annars vegar stöðu þeirra sem eru forsjárlausir og foreldra með forsjá og síðan og ekki síður foreldra sem hafa sameiginlegt forræði en barn er ekki skráð með lögheimili þar sem foreldri býr. Síðan er fjórði hópurinn foreldri sem hefur sameiginlega forsjá en barn er skráð með lögheimili þar sem umrætt foreldri býr.

Ég er ekki viss um þegar á reynir og menn fara að skoða þessi mál og gaumgæfa þau að staða t.d. foreldra sem hafa sameiginlega forsjá og barnið er skráð með lögheimili annars staðar sé svo sterk og tel að fara þurfi rækilega í gegnum hana. Meðlag rennur t.d. alveg að fullu til þess foreldris sem barnið er skráð til lögheimilis hjá, eins allar barnabætur, barnabótaaukar og hvað þetta allt heitir. En ég tel að það þurfi að fara í þá vinnu að menn geti gert með sér samkomulag um að þessum bótum verði skipt, t.d. ef barn dvelur 30% af tímanum eða 40% af tímanum hjá öðru foreldrinu. Það kom fram hér í máli hæstv. ráðherra að þessir fjármunir eru ætlaðir fyrir barnið og þess vegna er augljóst að kerfið verði þannig úr garði gert að þessir fjármunir geti þá streymt þangað sem barnið er. Ef barnið er 30% af tímanum hjá öðru foreldrinu er þá ekki eðlilegt að umræddar upphæðir fylgi barninu þann tíma sem það er þar?

Ég tel, eins og ég sagði, að það sé mjög nauðsynlegt að fara rækilega í gegnum stöðu foreldra sem hafa sameiginlega forsjá en barn er ekki skráð til lögheimilis hjá.

Ég ætla að láta þessari umfjöllun lokið. Ég tel að það þurfi að fara mjög rækilega í gegnum þetta mál í meðförum nefndar sem tekur málið til umfjöllunar og það verður örugglega mjög fróðlegt að taka þátt í þeirri vinnu.