132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[15:45]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ágætar umræður um frumvarpið. Greinilegt er að nefndarmenn í hv. allsherjarnefnd hafa mikinn áhuga á að fara rækilega ofan í þessi mál í tilefni af frumvarpinu. Af minni hálfu var einmitt einn þátturinn í því að flytja þetta frumvarp að gefið yrði tækifæri til þess í nefndinni að ræða þessi mál og fara yfir einstaka þætti þeirra og menn gætu kynnt sér þau sjónarmið sem eru uppi. Ég tel að í þessum efnum eigi menn ekki að hika við að leggja fram tillögur og koma fram með sjónarmið og sjá síðan hver viðhorfin eru þegar upp verður staðið að lokum. Í þessu efni hef ég lagt fram ákveðnar tillögur. Ég tel að fram hafi komið stuðningur við þau meginsjónarmið sem að baki frumvarpinu búa þó að menn vilji síðan skoða einstaka þætti eins og gefur að skilja.

Sagt var að í Svíþjóð væru menn að hverfa frá hugmyndinni um sameiginlega forsjá, ég held að það sé ekki. Ég held að menn séu frekar að hverfa frá hugmyndinni um að dómarar geti dæmt sameiginlega forsjá í óþökk foreldra. Það sé það sem þeir eru að velta fyrir sér frekar en hitt hvort sameiginlega forsjáin eigi að vera meginreglan eða ekki.

Ég var spurður um, virðulegi forseti, hver hefði samið frumvarpið. Það var samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu af embættismönnum þar og sifjalaganefnd var höfð með í ráðum eins og eðlilegt er. Eftir að frumvarpið hafði verið samið fór hún yfir það. Forsjárnefnd hefur ekki farið yfir frumvarpið og í raun hefur enginn farið yfir frumvarpið því ég tel að það sé hlutverk allsherjarnefndar þingsins að leita eftir umsögnum. Það eru ákvæði í því sem eru umdeild og umdeilanleg og mér finnst eðlilegt að rætt sé um þau á vettvangi þingsins. Eins og fram hefur komið í umræðunum búa margir nefndarmenn í allsherjarnefnd að góðri þekkingu og reynslu á þessu sviði sem mun nýtast í meðferð málsins. Einnig hefur komið fram að síðast þegar þessi ákvæði voru til umræðu ákváðu menn að ganga ekki það langt að lýsa yfir þeirri meginreglu að forsjá skyldi verða sameiginleg, en það skref erum við að stíga núna.

Virðulegi forseti. Ég var einnig spurður um til hvaða tillagna forsjárnefndar hefði ekki verið tekið tillit. Sumt af því sem nefndin leggur til varðar löggjöf, annað varðar aðra þætti. Það er t.d. meginatriði af hálfu nefndarinnar að gefið verði út gott kynningarefni. Svo virðist vera að það skorti mjög kynningarefni og leiðbeiningarefni. Raunar er ég undrandi á því að það skuli ekki hafa verið gefið út nú þegar. Við ákváðum að fara ekki út í slíka útgáfu samhliða því sem við flyttum þessa breytingartillögu en þvert á móti um leið og Alþingi hefur sagt sitt síðasta orð um frumvarpið verði gengið til þess að gefa út kynningarefni.

Síðan fjallar hún um sameiginlega forsjá og meginregluna sem við erum að fjalla um, þá umgengnistálmanir sem hún nefnir og ræðir. Við teljum að við séum að taka á því máli m.a. með því að breyta þeim þáttum varðandi kærur, þ.e. að úrskurður sýslumanns um umgengni komi til framkvæmda strax án tillits til þess hvort kært er eða ekki. Má kannski færa einhver rök fyrir því að menn séu að kæra og setji slíkar deilur í ákveðinn farveg til þess m.a. að fresta gildistöku úrskurðar sýslumanns. Síðan líður ákveðinn tími, það tekur alltaf langan tíma, mismunandi þó, en menn geta sjálfir stýrt þeim tíma með því að heimta frekari gögn og sérfræðiálit og ráðið hvað tíminn er langur. Á ferlinu breytast aðstæður, barnið eldist o.s.frv. og þá geta þeir skapað með þeim hætti ákveðnar tálmanir líka þannig að með því einu að segja sem svo að úrskurðirnir skuli taka gildi um leið og þeir eru felldir án tillits til kæru þá er kannski verið að draga úr líkum á að kært verði og einnig er verið að stuðla að því að í raun verði gengið til þess að framkvæma úrskurðinn strax og ég tel að það sé mikið atriði. Ég held að ekki hafi reynt mikið á dagsektir. Ég er ekki kunnugur því og ætla ekki að tjá mig mikið um það lögfræðilega álitaefni sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson nefndi varðandi dagsektir, að þær breyti úrskurði sýslumanns o.s.frv., ég ætla ekki að tjá mig um það. Það er lögfræðilegt álitaefni sem ég vil ekki segja neitt um því að orð mín geta verið túlkuð á ákveðinn hátt ef svo bæri undir. Ég ætla að sleppa því að tjá mig um það núna, mér finnst eðlilegt að menn geti rætt þetta á vettvangi nefndarinnar, fengið upplýsingar þar um lögfræðileg álitaefni en ég ætla að sleppa því að tjá mig um það en auðvitað er þetta eitt af því sem þarf að skoða.

Síðan hefur nefndin talað um sambúðarslit á skilnaðarsamningi, um ákvæði um fyrirkomulag umgengni, um nánari skilgreiningu á því hvert sé inntak sameiginlegrar forsjár. Það er eitt af því sem hún fjallar um, skilvirk og fljótleg úrræði ef umgengni er tálmað, viðurkenning á framfærslu foreldris sem barn býr ekki hjá, hraðari afgreiðsla ágreiningsmála og fyrirbyggjandi ráðgjöf. Ég tel að í megindráttum séum við í frumvarpinu að taka á stærstu þáttunum. Annað er framkvæmdaatriði, útgáfa kynningarefnis og annað slíkt eru atriði sem við þurfum síðan að sinna þegar hv. Alþingi hefur fjallað um málið.

Virðulegi forseti. Ég þakka þær góðu umræður sem hafa orðið um málið og ég veit og heyri að menn ætla að leggja mikla vinnu í að kynna sér það frekar áður en þeir komast að niðurstöðu í hv. allsherjarnefnd og ég fagna því.