132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stjórn fiskveiða.

17. mál
[15:51]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, þ.e. að íslenskir ríkisborgarar fái að stunda fiskveiðar sem til þess hafa menntun, kunnáttu og eignarhald á bátum, farið á öryggisnámskeið í Slysavarnaskóla sjómanna, hafa báta sína haffæra, uppfylla skilyrði um sjálfvirka tilkynningarskyldu og önnur þau lög um menntun og störf manna sem stunda veiðar á bátum kveða á um.

Frumvarpið er flutt af þeim sem hér stendur og öðrum hv. þingmönnum Frjálslynda flokksins, Magnúsi Þór Hafsteinssyni og Sigurjóni Þórðarsyni. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

Þrátt fyrir önnur ákvæði þessara laga er öllum þeim íslenskum ríkisborgurum sem hafa tilskilin réttindi til skipstjórnar og vélstjórnar, ef þess er krafist vegna stærðar vélar viðkomandi báts, að stunda fiskveiðar á eigin bát með tveimur sjálfvirkum handfærarúllum. Báturinn skal vera undir 30 brúttórúmlestum að stærð og uppfylla skilyrði um sjálfvirka tilkynningarskyldu. Báturinn skal hafa viðurkennt haffæri. Á hverjum bát mega vera tveir menn í áhöfn og er hámarksfjöldi sjálfvirkra rúlla þá fjórar rúllur á tvo menn. Að fimm árum loknum skal skoðuð reynslan af þessum veiðum með tilliti til þess hvort setja eigi viðbótartakmarkanir sem taki eingöngu til veiðisvæða bátanna og fjölda veiðidaga.

Veiðar þessara báta eru ekki reiknaðar til aflamarks og hafa ekki áhrif á heildarúthlutun aflamarks til annarra fiskiskipa.“

Málinu fylgir nokkuð stutt greinargerð sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta:

„Það hefur löngum verið réttur Íslendinga við sjávarsíðuna að fá að róa til fiskjar og útróðrajarðir voru líklegri til þess að brauðfæða fólkið og gefa tekjur en þær jarðir sem illa lágu við fiskislóð. Útróðraréttur var metinn sem verðmæti í jörðum og talinn til hlunninda. Í gömlum lögum var öllum tryggður veiðiréttur í fjörðum og flóum. Þannig orðað að rétt ættu menn til fiskveiði sinnar nema síldveiði sem öllum væri heimilt að stunda hvar sem væri. Landsmenn áttu þannig allir tryggan forgang til botnfiskveiða næst sínum byggðum. Með þessu frumvarpi verður þeim sem rétt hafa til þess að stjórna skipum veittur þessi veiðiréttur á nýjan leik.“

Rétt er að geta þess, hæstv. forseti, að þau lög sem ég vitnaði til í greinargerðinni eru enn þá í íslenska lagasafninu en þau tóku gildi 15. október 1888 og var breytt með lögum nr. 46/1926, en í lagagreininni segir, með leyfi forseta:

„Rétt er að útilykja aðkomandi fiskimenn frá bátfiski, nema síldveiðar sé, á fjörðum eða tilteknum fjarðasvæðum, sökum fiskiveiða fjarðarbúa, og skal það gjört með samþykkt á þann hátt, er segir í lögum 14. desember 1877 um ýmisleg atriði, er snerta fiskiveiðar á opnum skipum, og skulu að öðru leyti ákvæði téðra laga og laga nr. 23 4. desember 1886 gilda um slíkar samþykktir.

Að öðru leyti eru og slíkir aðkomumenn háðir landslögum um fiskiveiðar og útflutningstoll af sjávarafla.“

Þetta var hinn markaði réttur manna við sjávarbyggðirnar á fyrri tíð og höfðu þeir allan forgang að því að nytja nærfiskimið sín ef um botnfiskveiði var að ræða en höfðu engan forgangsrétt til veiða ef um síldveiðar var að ræða. Þar áttu sem sagt allir jafnan rétt. Síðar voru sett ýmis lög um síldveiðar hér við land og reyndar fyrr, ætla ég ekki að rekja það hér enda varðar það ekki efni máls.

Það sem gerst hefur í fiskveiðisögu okkar á undanförnum árum er að búið er að kvótasetja allar fiskveiðar, nú síðast handafæraveiðar á trillum og er nú enginn svokallaður sóknarréttur til staðar. Verðmætaþróun á hinum skömmtuðu kvótum í sjávarútvegi hefur verið með þeim hætti á undanförnum árum og er enn að afar litlar líkur eru til þess að menn eigi auðvelda leið inn í útgerðarþáttinn og er þó hverri byggð afar mikilvægt að nýliðar komist að í jafnveigamikilli atvinnugrein og útgerð á Íslandi. Þess utan hefur það gerst við þá vegferð sem farin hefur verið með kvótasetningu á allar fisktegundir á undanförnum árum að sú mæling sem farið hefur fram sjálfvirkt á fiskislóðinni varðandi fiskmagn og hegðun fisksins með sóknarstýrðum veiðum er að hverfa. Það er í sjálfu sér mjög áhugaverður þáttur að ræða í sambandi við frumvarpið hér sem gefur mönnum það takmarkaða frelsi að hafi þeir menntað sig til þessara starfa, þ.e. til að stjórna íslenskum skipum og hafi til þess vélstjórnarpróf, ef vélarstærð er af þeim stærðarflokki að slíkt þurfi, þá skuli þessum mönnum, að því gefnu að þeir eigi sjálfir eigin bát, heimilt að stunda á honum þessar takmörkuðu veiðar sem frumvarpið gerir ráð fyrir með tveimur handfærarúllum á mann mest. Síðan verði þetta endurskoðað að fimm árum liðnum með tilliti til þess hvernig þetta hafi þróast.

Nú kann vel að vera að einhverjir varkárir menn vilji hafa allt annan fyrirvara á því en hafa fimm ár sem viðmiðun fyrir þessa lagasetningu og vilji hafa þetta þrjú ár. Það er alveg efni umræðu að fara yfir það. Hinu verður ekki á móti mælt, hæstv. forseti, að einu sóknarstýrðu veiðarnar sem haldið er úti á Íslandsmiðum eru sóknarstýrðar veiðar Hafrannsóknastofnunar, sem Hafrannsóknastofnun heldur úti til að fá yfirlit um hvernig fiskstofnar eru staddir á Íslandsmiðum varðandi vöxt og viðgang botnfiskstofnanna einkanlega. Þetta er gert með ýmsum hætti. Þetta var gert með svokölluðu togararalli sem tekið var upp 1985 og hefur verið við lýði síðan og þetta er gert með svokölluðu netaralli þar sem mönnum er heimilt að stunda ákveðnar veiðar í ákveðinn tíma að tillögu Hafrannsóknastofnunar með ákveðinn netafjölda og á ákveðnum svæðum til að mæla fiskmagn á viðkomandi fiskislóðum og tíma. Allt er þetta gert til að fá samanburð á því hvernig fiskmagnið á Íslandsmiðum hefur þróast, oftast nær byggt upp á því sem fiskifræðingar kalla á máli sínu vísitölur sem út úr þessu koma.

Síðan stigum við það ógæfuspor að mínu viti á síðasta ári að kvótasetja trillur á handfæraveiðum. Þar af leiðandi lögðum við niður þá sjálfvirku sóknarmælingu sem sjómenn stóðu sjálfir fyrir um hvernig aflabrögð væru á handfæraveiðum, hvar fiskurinn héldi sig og hvernig fiskigöngur væru við landið o.s.frv. Þetta var sett yfir í kvótakerfi. Og nákvæmlega eins og við spáðum fyrir um í Frjálslynda flokknum og fleiri í ræðum á hv. Alþingi þá gerbreyttist hegðun manna frá því í sóknarstýrða kerfinu við það að koma yfir í hið svo kallaða kvótakerfi og nú geta menn ekki lengur borið þá veiði saman varðandi sóknartíma og aflabrögð. Ætli Hafrannsóknastofnun leggi ekki til næst að taka upp sérstakt sóknarstýrt rall á handfæraveiðum til að fá betri mælingu á hegðun fisksins á Íslandsmiðum? Það kæmi mér ekki á óvart, hæstv. forseti, því það eru sóknarstýrðar aðferðir sem notaðar eru bæði í togararallinu og netarallinu. Og svo mikla ofurtrú hefur Hafrannsóknastofnum á þessum sóknarstýrðu aðferðum að búið er að leggja niður mat á stærð hrygningarstofnsins og heildarstofnsins við Ísland, aðferðum sem viðgengust í áratugi, þ.e. að taka sýni úr afla, aðgæta hvort fiskurinn væri kynþroska, taka kvarnasýni úr viðkomandi fisktegund, skrá niður veiðidaga o.s.frv. Þetta voru þau grunngögn sem notuð voru hér á landi áratugum saman til að meta stofnstærð íslenska þorskstofnsins, bæði hvar fiskurinn hélt sig á veiðislóð og eins árgangaskipan, kynþroskahlutfall stofnsins o.s.frv. Þessum tölum hefur Hafrannsóknastofnun ýtt til hliðar og er nú eingöngu byggt á togararalli og netaralli hvað það varðar að finna út hvert sé hlutfall hrygningarstofnsins í heildarstofninum og hve heildarstofninn sé stór.

Það er ákaflega athyglisvert að á sama tíma og við hömumst við að taka upp kvótabundnar veiðar á hverri fisktegundinni á fætur annarri skuli Hafrannsóknastofnunin leggja allt upp úr því að byggja spádóma sína sá sóknarstýrðum veiðum, tímabundnum sóknarstýrðum veiðum sem fara fram annars vegar í togararallinu, hins vegar í netarallinu og síðan ef ég man rétt eru þeir sjálfir með sérstakt haustrall á skipum sínum. Eins og ég sagði áðan kæmi mér ekki á óvart að þeir þyrftu að bæta inn í sóknarstýrðu handfæraralli til að fá einhverja mynd af því hvernig fiskurinn hagar sér yfir sumartímann á veiðislóðinni við Ísland. Því það vita allir sem vita vilja að hegðun manna í kvótastýrðu kerfi er allt önnur en í sóknarstýrðu kerfi og það vita hafrannsóknamennirnir best. Þeir treysta því ekki lengur gögnum sem koma úr lönduðum afla í aflamarkskerfi, telja greinilega að það gefi ekki rétta mynd, hvorki varðandi stærðarsamsetningu aflans né jafnvel kynþroska, enda hefur komið í ljós að menn hafa verið að landa allmiklu af hrognum á síðustu árum, sumir hverjir. Þá er það niðurstaða Hafrannsóknastofnunar að henda slíkri viðmiðun, nota hana ekki og byggja alfarið á sóknarstýrðum gögnum. Það er í sjálfu sér mjög athyglisverð niðurstaða.

Það sem kannski er verra, hæstv. forseti, mér sýnist að rannsóknaraðferðir Hafrannsóknastofnunar séu að leiða stofnunina á algerar villigötur varðandi þróun fiskstofna við Ísland. Verður það auðvitað alveg sérstakt umræðuefni sem taka þarf fyrir í sölum Alþingis. Vonandi verður orðið við þeirri beiðni okkar í Frjálslynda flokknum að ræða sérstaklega þróun og stærð þorskstofnsins í ljósi þeirra upplýsinga sem birtust í gær um að á næstu tíu árum þyrfti ekki að búast við aukinni þorskveiði heldur frekar minnkandi og væri ástæða til að skera veiðina verulega niður og draga úr sókn. Var vikið sérstaklega að því á ráðstefnunni í gær að draga skyldi úr sókn í stærsta fiskinn, hrygningarfiskinn. Það voru sömu áhyggjur sem skipstjórnarmenn höfðu 1966 þegar þeir veiddu nótafiskinn, stórþorsk í nót á Vesturlandi og Suðurlandi, að þeir gengju einmitt á viðhaldskýrnar sem héldu stofninum við en þá voru hafrannsóknamenn á allt annarri skoðun og töldu að þessi fiskur væri það gamall að ekki væri ástæða til að draga úr veiðum á honum.

En nú hafa hafrannsóknamenn sem sagt komist að þeirri niðurstöðu að sérstaklega þurfi að hafa í hrygningarstofninum stóran fisk til að viðhalda stofnunum hér við land. (Gripið fram í.) Þetta voru reyndir skipstjórnarmenn. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að fá að vera í öldungadeild, sennilega með yngstu mönnum sem það hafa fengið, og mennta mig með reyndustu skipstjórum landsins, eins og Ásgeiri Guðbjartssyni og Finnboga Jónssyni frá Patreksfirði og fleiri mönnum. Þetta voru engir aukvisar, menn sem vissu sínu viti, einhverjir mestu aflamenn Íslandssögunnar. Maður lagði auðvitað við eyrun því að ég fékk ekki bara mína menntun í Stýrimannaskólanum, ég lærði líka af þeim sem höfðu meira vit en ég og meiri reynslu. Það er það sem við þurfum ævinlega að gera og hefði átt að leggja betur eyrun við áhyggjur þeirra manna sem stunduðu fiskveiðar þá miðað við þær lýsingar sem Hafrannsóknastofnun gefur af þorskstofninum í dag.

Tillagan sem við flytjum hér — eigum við ekki bara að gefa henni nafnið litla handfæraveiðifrumvarpið? — Alla vega býst ég ekki við því að þó svo þetta yrði leyft, sem ég dreg reyndar mjög í efa miðað við orð hæstv. núverandi sjávarútvegsráðherra, Einars K. Guðfinnssonar, sem lýsir því yfir að hann ætli að ganga algerlega í fótspor forvera síns og fylgja nákvæmlega eftir þeirri stefnu og engu breyta og ekki standi til að breyta neinu í stjórn fiskveiða, enda mun það loforð hafa verið gefið víðar en í Reykjavík, m.a. norður á Akureyri og víðar, að fáu yrði breytt í stjórn fiskveiða. En nóg um það, hæstv. forseti. Við leggjum til í Frjálslynda flokknum að tillaga þessi sem hér er í frumvarpsformi fái umfjöllun og menn rökræði það hversu hættuleg hún sé, hversu æskileg hún sé o.s.frv. eftir því hvað mönnum sýnist. Við höldum að ekki sé stórkostleg hætta fólgin í því þó að mönnum leyfist það sem þar er lagt til, enda fylgja því ýmis skilyrði eins og ég taldi upp í ræðu minni áður. Eitt er víst að við fáum þá einhverja sóknarstýrða mælingu á veiðar næst ströndinni. Og sjómenn, margir hverjir komnir á efri ár, sem núna eiga engan rétt til fiskveiða og reiða ekki með sér milljónir í bakpokum eins og sumir sem eignast hafa fjármuni hér í þjóðfélaginu, geta ekki keypt sig inn í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Það geta reyndar fáir.

Við hv. þingmenn ættum að hafa miklar áhyggjur af því hvernig útvegurinn þróast og hvernig endurnýjunin í útgerðarþættinum verður þegar ungir og dugmiklir menn eru notaðir sem leiguliðar í 8–10 ár í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi til þess að greiða einhverjum öðrum leigurétt fyrir að veiða fiskinn á 80 og upp í 120 kr. á kílóið, og lýsa því svo yfir, m.a. í blöðum sem fjalla um sjávarútvegsmál, að eftir 8–10 ár séu þeir orðnir algerlega uppgefnir á því að vera í þessu leiguliðahlutverki og muni ekki reyna að komast inn í greinina, enda hafi þeir engin veð í óveiddum fiski til að veðsetja til að fá lánafyrirgreiðslu hjá bönkum. Það er ekki auðveld leið fyrir menn, þótt dugnaðarsjómenn séu, með mikla kunnáttu til fiskveiða en litla fjármuni að kaupa sig inn í atvinnugrein þar sem gerð er krafa um að menn gangist undir að greiða 150 milljónir til að komast inn í greinina ef einhverjar heimildir eiga að vera á bátnum svo stunda megi veiðar í því kerfi sem nú er notað.

Hæstv. forseti. Að mínu viti eru allar atvinnugreinar sem hafa slíka umgerð dæmdar til að líða undir lok. Ef atvinnugrein hefur það sjálfvirkt í sér að duglegustu einstaklingunum er ýtt frá, þeir komast ekki að, geta ekki unnið sig upp í kerfinu, gefast upp í leiguliðahlutverkinu og hverfa frá, þá endar auðvitað með því að það verður atgervisflótti úr slíkum atvinnugreinum. Ekki þætti björgulegt í öðrum atvinnugreinum ef þeim sem sýnilega hefðu hæfileikana og dugnaðinn væri ekki gert kleift að komast inn í viðkomandi atvinnugrein með neinu móti og ættu í raun og veru enga möguleika á því.

Það er líka athyglisvert að þau lög sem ég vitnaði til skuli enn þá vera í íslenska lagasafninu, um að menn eigi forgang til fjarðarveiði sinnar nema síldveiði sé. Einhverjum kynni að detta í hug að láta reyna á þessi lög. Þau kváðu á sínum tíma á um það að menn stunduðu veiðar á opnum bátum, því að lögin eru eins og ég áður sagði frá 1888 og þá voru opnir bátar á Íslandsmiðum stór hluti af útgerðarsögunni.

Ef við veltum aðeins fyrir okkur umræðum sem hér hafa farið fram á undanförnum árum og förum kannski ekki eins langt aftur í tímann og ég vitnaði til áðan heldur bara til ársins 2001, þá er ákaflega fróðlegt, hæstv. forseti, að líta á umræðu sem þá fram fór um mál sem hv. þm. Jóhann Ársælsson lagði fram í hv. Alþingi. Það voru aðallega ummæli hæstv. sjávarútvegsráðherra sem ég staldraði við þegar ég gáði að hvað ráðherrann hefði sagt á því ári, 2001, þegar við mótuðum kvótasetningarnar í smábátakerfinu, þ.e. þorskaflahámarkskerfinu, sem síðar urðu kannski aðdragandinn að því, eftir að menn höfðu kvótabundið ýsuna, ufsann og steinbítinn, að menn fóru líka lengra og kvótasettu handfæraveiðarnar á síðasta fiskveiðiári. En við vorum að ræða, með leyfi forseta, í mars 2001, nánar tiltekið 5. mars, mál sem hv. þm. Jóhann Ársælsson flutti og snerist um breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða. Og af því tilefni að haldin var í gær afmælisráðstefna Hafró um framtíð fiskstofnanna þá held ég að það væri þess virði, með leyfi forseta, að vitna í ræðu hæstv. sjávarútvegsráðherra í þessu máli, en ég held að hún sé ákaflega merkileg í ljósi þess sem gerðist í gær. Þá sagði hæstv. sjávarútvegsráðherra, eftir að hafa hnýtt aðeins í þann sem hér stendur að hann væri fastur í einhverri fortíð og einhverjum veruleika sem honum geðjaðist ekki að, eftirfarandi:

„En sá hluti sem sneri að fiskveiðistjórninni, stjórnun veiðanna og uppbyggingu stofnanna, fór ekki að skila verulegum árangri fyrr en í upphafi síðasta áratugar því að á árunum 1983–1990 var mestallan tímann í gangi blandað kerfi, kerfi kvótakerfis og sóknarkerfis. Því miður varð síðan staðan sú að flest þessi ár var ákveðið heildaraflamark umfram það sem vísindamenn lögðu til og síðan var veiðin líka umfram það heildaraflamark sem sett hafði verið þannig að á þessu tímabili var heildaraflinn langt umfram það sem hin vísindalega fiskveiðistjórn hafði lagt til. Og það er ekki fyrr en á síðasta áratug eftir að lögin tóku gildi 1991 og sérstaklega eftir að aflareglan var tekin upp sem veiðar úr þorskstofninum urðu í samræmi við það sem mat vísindamanna gaf til kynna að ætti að vera. Einmitt frá þessum tíma höfum við séð góðan árangur í því að byggja upp þorskstofninn.“

Síðan sagði þáverandi sjávarútvegsráðherra, Árni M. Mathiesen:

„Það er hins vegar aldrei svo að allir hlutir geti verið í 100% lagi þegar náttúran á í hlut. Þar er alltaf breytileiki sem við þekkjum ekki allan og getum ekki alltaf séð fyrir. Síðan kemur auðvitað mannlegi þátturinn inn í þetta líka og það er ekki ólíklegt að á meðan við höfðum mestar áhyggjur af þorskstofninum höfum við kannski litið fram hjá áhyggjum sem við hefðum þurft að hafa af öðrum stofnum samhliða og kannski ekki farið nægjanlega varlega með þá.“ — Þ.e. ýsustofninn, sem núna er í hámarki og fleiri fiskstofnar. En ég held áfram með lesturinn, með leyfi forseta:

„Við höfum þá kannski hin síðari ár verið í heldur meiri vafa um þá stöðu vegna þessa heldur en við þyrftum að vera en þetta er hlutur sem við erum að reyna að laga núna með fiskveiðistjórn okkar og vonandi munum við geta komið öðrum stofnum í eins góða stöðu og mér sýnist þorskstofninn vera í, alla vega miðað við hrygningar þriggja til fjögurra síðustu ára sem gefa til kynna að nýliðun í stofninum sé mjög góð.“

Nú vill svo einkennilega til, hæstv. forseti, að þeir stofnar sem ráðherra var að lýsa áhyggjum af að við hefðum ofveitt, ýsa, ufsi og steinbítur, eru á uppleið. Ýsan í sögulegu hámarki frá árinu 1954, hygg ég, er við komumst ásamt Bretum og fleiri þjóðum í að veiða 117 þús. tonn, minnir mig að það hafi verið. Alla vega á annað hundrað þúsund tonn. Þeir stofnar sem sjávarútvegsráðherrann hafði svo miklar áhyggjur af að hefði verið gengið verulega á, til að hlífa þorskstofninum, eru núna í ágætis standi. En hvað með þorskstofninn? Staða hans var í gær metin þannig að eðlilegt væri að skera verulega niður veiðar á honum næstu 10 árin. Hæstv. forseti, næstu 10 árin.

Svakalega var Árni M. Mathiesen, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, framsýnn í þessari ræðu sinni árið 2001. Ofboðslega voru þetta mikil og góð vísindi sem hann byggði rök sín á, hæstv. forseti. Afskaplega held ég að íslenska þjóðin megi vera hamingjusöm með að hafa svo framsýna menn í stóli sjávarútvegsráðherra, sem leggja línurnar með þessum hætti og fá út plús fyrir fram. En fjórum árum síðar hefur Hafrannsóknastofnun fengið út mínus. Ekki einu sinni heldur tíu sinnum.

Staðreyndin er sú, eins og kom fram í umræðunni fyrir nokkrum dögum þegar við vorum að ræða sjávarútvegsmálin, hv. þm. Össur Skarphéðinsson tók þátt í henni ásamt fleirum, að árangur fiskveiðistjórnar í núverandi kvótakerfi er enginn. Meðaltalsniðurstaðan af þorskveiðum hér við land, eftir að kvótakerfið var tekið upp, er ákaflega döpur, svo ekki sé meira sagt. Hún er ákaflega döpur.

Þetta er hinn kaldi veruleiki. Menn geta rekið hausinn ofan í sandinn og sagt að hvítt sé svart og hæstv. sjávarútvegsráðherra getur tekið hlutina rosalega alvarlega sex sinnum í ræðu sinni. Það breytir ekki því að staðan er eins og hún er, hæstv. forseti.