132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stjórn fiskveiða.

17. mál
[16:26]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er einn af þeim mönnum sem alltaf ala í brjósti sér drauminn um að verða sjálfstæðir sjómenn. Ég hef svolitla reynslu af því og horfi alltaf til þeirra daga með nokkurri rómantík. Ég er í hópi þeirra sem vel geta hugsað sér að afla slíkra réttinda til að geta uppfyllt þau skilyrði. En vélstjórnarréttindin, sem hv. þingmaður nefndi, eru í raun einu takmarkanirnar á þessu. Ég geri ekki ráð fyrir því að í svona útgerð yrði fjármagnið takmarkandi. Ég held einfaldlega að hún yrði það arðbær að allir mundu lána til hennar sem (Gripið fram í: Er það ekki jákvætt?) vit hafa, í bönkum. Jú, það er jákvætt.

Ég undirstrika að ég hef samúð með og skilning á viðhorfinu sem birtist hjá hv. þingmönnum Frjálslynda flokksins, að auka frelsi. Það er mín stefna og mitt lífsviðhorf, að auka frelsi til sjósóknar og möguleika manna á að hasla sér völl sem sjálfstæðir sjómenn.

Mér finnst hins vegar, svo ég leyfi mér að gagnrýna frumvarpið, að það sé nokkuð umhendis að samþykkja það án þess að vita að minnsta kosti gróflega hvað menn eru að leggja út í. Ég geri mér grein fyrir því að fyrsta kastið þyrptust kannski ekki þúsundir í þetta en ég gæti ímyndað mér að þetta yrði ákaflega aðlaðandi atvinna fyrir marga á landsbyggðinni í grennd við góð mið. Þess vegna finnst mér skorta upp á það hjá hv. þingmönnum Frjálslynda flokksins að útskýra hvað þetta þýðir í reynd. Mér finnst þetta ansi rúmt, 30 lesta bátar með fjórum sjálfvirkum rúllum og tveir karlar á. Ég tel að t.d. að sá ágæti fiskifræðingur, sem hér dormar í salnum, ætti á eftir að veita okkur svolitla innsýn í þá þekkingu og reynslu sem hann hefur og upplýsa okkur um þetta. Ég er viss um að það hefur verið slegið á þetta af flokknum.

Ég segi enn að ég er þeirrar skoðunar að með einhverjum hætti eigi að auka frelsi smábáta til að róa. Mér fyndist frumvarpið strax meira aðlaðandi með fimm ára endurskoðunarákvæði, en ég skoða það með velvilja.