132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stjórn fiskveiða.

17. mál
[17:00]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gaman að fá að svara þessari spurningu einu sinni enn. Ég hef svarað henni oft á undanförnum dögum og svarið er: Nei. Ég held að íslenskir útgerðarmenn þurfi á einhvers konar aðlögun að halda þegar auðlindin verður sett inn í stjórnarskrána til framtíðar. Auðvitað munu stjórnvöld þurfa að gæta eignarhaldsins fyrir hönd þjóðarinnar og verður ekki horfið frá fyrirkomulaginu sem nú er á auga lifandi bragði. Menn verða að gefa einhvern aðlögunartíma.

Ég tel að fyrningarleiðin sé ágætis leið til þess en er tilbúinn til að ræða og velta fyrir mér með öðrum aðrar leiðir sem menn benda á að muni þjóna sama tilgangi. Það verður ekki hrist fram úr erminni að finna leið sem allir verða sáttir við. En ef allir eru staðfastir í því að gera þetta að þjóðarauðlind til framtíðar þá hljóta allir að vera sammála um að gera það þannig að börn okkar og barnabörn eigi þessa auðlind saman í framtíðinni og að hún verði nýtt af þeim sem taka þátt í útgerð á Íslandi á jafnræðisgrunni. Þetta er verkefnið og það er virkilega ögrandi og skemmtilegt verkefni.

Fyrningarleiðin er ágætis leið en ég er alveg tilbúinn að ræða það við hv. þm. Birki Jón Jónsson hvernig hann vill standa að málinu.