132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stjórn fiskveiða.

17. mál
[17:04]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann vel að vera að hv. þingmanni finnist fyrningarleiðin ekki nógu góð til að þjóna þeim tilgangi að verða grunnur að því að auðlindin verði sett inn í stjórnarskrána. Ég spurði hv. þingmann að því hvernig hann vildi fara að því en hann gerði nú ekki mikið í að svara því.

Það er augljóst að veiðigjaldið sem notast er við um þessar mundir mun ekki þjóna þeim tilgangi. Það verður ekki hægt að líta á neina auðlind sem þjóðarauðlind til framtíðar ef einhverjir hafa einkarétt á að nýta hana. Það þarf jafnræði við nýtingu þjóðarauðlinda og þarf að koma fyrir það sanngjarnt gjald, sem ekki er hægt að finna út öðruvísi en á þeim markaði sem stjórnar verðinu á viðkomandi réttindum. Þetta er ekki það sem veiðigjaldið ber í sér. Veiðigjaldsleiðin ber ekkert annað í sér en það að færa þeim sem fyrir eru í útgerð á Íslandi einkaréttindi til þess að hafa aðgang að auðlindinni og selja öðrum aðgang að henni. Það er ekki boðleg meðferð á þjóðarauðlind til framtíðar.

Verkefni okkar er að finna réttu leiðina. Vilji menn ekki fara okkar leið, fyrningarleiðina, þá finna menn væntanlega aðra leið sem þjónar nákvæmlega sama tilgangi, þ.e. að skapa jafnræði og gefa mönnum og fyrirtækjum möguleika á að nýta þjóðarauðlindir, hlið við hlið, án þess að einhver hafi á því einkarétt.