132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stjórn fiskveiða.

17. mál
[17:25]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var að mörgu leyti athyglisvert að hlusta á hv. þm. Sigurjón Þórðarson tala um þetta þingmál. Svo virðist sem hann hafi því miður gleymt að tala um sjálft þingmálið, enda snerist ræðan kannski fyrst og fremst um afmæli Hafró, þorskana í Arnarfirði og svo man ég ekki hvort það voru vaxtarsamningar eða vaxtarverkir hæstv. byggðamálaráðherra.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í nokkur atriði er varða þetta tiltekna þingmál.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja: Hversu margir bátar mættu vera í slíku kerfi, frjálsu kerfi, samkvæmt þingmálinu?

Í annan stað: Gæti sami maðurinn átt marga báta með því fyrirkomulagi? (Gripið fram í.)

Í þriðja lagi: Gerir þingmaðurinn sér grein fyrir hversu margir bátar gætu fallið undir sama kerfi?

Enn fremur vil ég spyrja: Af hverju setur hv. þingmaður mörkin við 30 tonna báta? Af hverju ekki stærri báta?

Auk þessa spyr ég hvort það sé ekki mat þingmannsins að hætt sé við því að fjöldinn allur fari til veiða í slíku kerfi þar sem launakostnaður og annar fastakostnaður er sáralítill í samanburði við verðmætin sem fjórar rúllur á bátum, allt að 30 tonnum, geta skilað að landi.

Ég vil í lokin spyrja: Hvað um ábyrgar fiskveiðar, vísindin til framtíðar og veiðiráðgjöf? Þótt ég sé ekki sammála núverandi aðferðafræði sem Hafró styðst við þá þýðir það ekki að ég geti kvittað upp á algert stjórnleysi við fiskveiðar.