132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stjórn fiskveiða.

17. mál
[17:49]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Umræðan hefur verið ágæt hér í dag og búið að leiða fram ýmis rök í málinu, rætt hefur verið um atvinnufrelsi manna annars vegar og afleiðingar þess fiskveiðistjórnarkerfis sem við búum við hins vegar, ásamt því að menn hafa rætt hér nýjustu fréttir af vettvangi Hafrannsóknastofnunar um það að framtíðin sé ekki björt í þorskveiðum hér við land. Í því sambandi vitnaði ég í ræðu sjávarútvegsráðherra hæstv. frá árinu 2001 en þá taldi hann blómlegt fram undan að því er varðaði þorskstofninn. Það þyrfti frekar að huga að öðrum stofnum eins og ýsunni sem þá var talin ofveidd en hefur síðan reynst spjara sig allvel.

Það er rétt að draga það hér fram, hæstv. forseti, að það er ekki eins og upplýsingar í þessu þjóðfélagi hafi skort um það hvaða áhrif sjávarútvegsstefnan, eins og hún hefur verið rekin, hefur haft á þróun byggðar. Það hefur verið vikið að því í ræðum manna. Í mars 2001, hæstv. forseti, kom út skýrsla frá Byggðastofnun: Sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi. Nýsir vann þá skýrslu fyrir Byggðastofnun og höfundur var Haraldur Líndal Haraldsson hagfræðingur.

Ég ætla að vitna hér örstutt í skýrsluna, með leyfi forseta, en aðeins bara í lokaorðin, stutt í samantektinni að framan. En þar segir, þegar búið er að tína til ýmis rök og afleiðingar af núverandi fiskveiðistjórnarstefnu, með leyfi forseta:

„Hér hefur verið leitast við að svara þeirri fyrirspurn stjórnar Byggðastofnunar hvort lögin um stjórn fiskveiða hafi haft áhrif á byggðaþróun í landinu.“

Síðan koma tveir punktar sem svara þessu:

„Ljóst er að ákvæði laganna um frjálst framsal veiðiheimilda hefur haft víðtækar afleiðingar á þróun byggðar í landinu með tilflutningi aflaheimilda á milli landshluta og einstakra byggðarlaga.“

Seinni punkturinn er:

„Þetta hefur leitt til verulegrar skuldaaukningar í sjávarútvegi, lækkunar launa í fiskvinnslu í samanburði við aðrar atvinnugreinar og fólksflótta af landsbyggðinni.“

Lengra ætlaði ég ekki að hafa þá tilvitnun en ég held það væri ágætt að menn færu yfir þessa skýrslu, kíktu aðeins í hana. Hún sagði ýmislegt sem síðar hefur verið að koma í ljós.

Í ræðum manna hefur ýmislegt komið fram, eins og ég vék að áðan, og hv. þingmaður Jóhann Ársælsson spurði mig ákveðinna spurninga sem ég ætla að leitast við að svara. Hann spurði m.a. að því hvort tveir menn mættu stjórna 30 tonna báti. Svarið við því er já, að því gefnu að þeir hafi skipstjórnarréttindi og einhver vélstjórnarréttindi, lágmark vélavarðaréttindi. Hins vegar er það svo að útivist slíks báts getur verið takmörkunum háð. Hún var löngum takmörkuð við einn og hálfan sólarhring, að því er mig minnir, útivera báts þar sem aðeins tveir menn væru við störf. Þess er líka að geta að undanþágur hafa verið veittar til þess að tveir menn starfi á tveggja manna báti sem jafnvel er stærri en þetta en þá við takmarkaðar veiðar þar sem menn koma að landi daglega, eins og skelveiðar og rækjuveiðar og veiðar sem stundaðar eru innfjarðar. Nú eða jafnvel aðrar veiðar, eins og úthafsrækjuveiðar á litlum bátum, enda væri þá útiveran takmörkuð.

Það var einnig vikið að því í ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að þorskstofninn væri til í ættkvíslum og hann fór nokkrum orðum um það. Auðvitað er það rétt hjá hv. þingmanni að þannig er það. Þorskurinn er ekki einn stofn þó hér sé leitast við að hafa kvótakerfi sem stýrir veiðunum út frá þeirri hugmynd að allur þorskurinn hegði sér eins, að hann komi til hrygningar á sömu stöðum við landið og hann hefur gert á undanförnum árum og áratugum og að hámarkshrygningin sé jafnan við suðurströndina. Út frá því hefur verið gengið.

Menn hafa talað um að ekki væri nú mikill dugur í hrygningu sem ætti sér stað annars staðar við landið og vafasamt að hún skilaði miklu inn í þorskstofninn. Þetta hafa fiskifræðingar sagt, jafnvel þó að þeir hafi fundið seiði fyrir Norðausturlandi og Austurlandi sem greinilega eru sæmilega á sig komin en hafa örugglega ekki klakist út við suðurströndina miðað við stærðina.

Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart og ég geri ekki ráð fyrir því að mér og hv. þm. Jóhanni Ársælssyni komi þetta á óvart. Þetta er auðvitað háð lífríkinu og hitafarssveiflum í hafinu. Þegar hlýnar fyrir Norðurlandi, eins og gerst hefur undanfarin ár, er ekki óeðlilegt að hrygning eigi sér stað þar og það hefur gerst í miklum mæli á undanförnum árum, inni á flóum og fjörðum norðan lands. En þá kannski líka í minna mæli hér sunnan lands en væri ef árferðið væri þannig að fiskurinn þyrfti að leita til Suðvesturlands og suðurstrandarinnar til að finna þann hita sem hentaði honum til hrygningar. En það er auðvitað það sem fiskurinn leitar að og þess vegna hrygnir hann síðar við Norðurland, jafnvel þótt hrygning dragist fram í júní í köldum árum, en getur þess vegna hrygnt fyrr ef sjórinn er hlýr eins og verið hefur undanfarin ár.

Það er líka önnur mjög sterk vísbending um að mikið af fiski syndi um á Norðurlandsmiðum. Það er m.a. það að þorskinum hefur tekist, ásamt stækkandi ýsustofni, að éta upp rækjuna nánast alls staðar innfjarðar, í flóum og fjörðum norðan lands og vestan. Varla er það vegna ofveiði á úthafsrækjunni að það hefur verið svo lítill afli þar undanfarin ár, það skyldi þó ekki frekar vera vegna þess að þorskurinn hafi verið á norðurmiðunum.

Aðeins út af þeirri umræðu sem varð um stórþorskinn á Selvogsbanka hér á árunum áður, að þá vorum við ekki að tala um neinar smákýr. Við vorum að tala um 70–80 stykki í tonnið, 70–80 þorska í tonnið þegar fiskurinn var sem stærstur á Selvogsbankanum. Menn voru að tala um alvöruþorska eins og sagt var í þá tíð. Menn hafa haft áhyggjur af því að ef mönnum yrði leyft að veiða með tveimur aflarúllum hverjum manni, hámark fjórum, gæti það orðið til þess að hér færi allt úr böndunum hvað varðar það magn sem tekið væri upp úr sjónum af þorski. Ég held að menn ættu ekki að hafa miklar áhyggjur af því. Menn vita það kannski ekki en staðreyndin er sú að á seinni árum, hæstv. forseti, hefur fiskimönnum við Ísland ekki alltaf tekist að klára sína 23 daga. Það var vegna veðurfars, hæstv. forseti. Veðurfarið er stundum þannig að það gengur illa að stunda handfæraveiðar en fáar veiðar eru eins háðar logni og góðviðri og handfæraveiðar. Því ekki veiða menn nú mikið á handfæri með færið meira og minna upp í sjó. Þannig að það er kannski rétt að benda á það að eins og tíðarfarið hefur verið í sumar og haust þá held ég að það hafi nú ekki verið mjög margir dagar sem menn hefðu farið á handfæraveiðar. Ekki mjög margir.

Það eru engar veiðar jafnháðar því að veðurfar sé gott á heilu ári og handfæraveiðarnar, þannig að ég held að menn ættu ekki að hafa stórkostlegar áhyggjur af því fyrir fram að sú tillaga sem við leggjum til hér, um þetta takmarkaða frelsi, verði til þess að kollvarpa algerlega árangri fiskveiðistjórnarinnar — innan gæsalappa auðvitað því að það hefur ekki skilað nokkrum árangri að byggja upp þorskstofninn eins og var upplýst síðast í gær.

Ég vitna hér til gamans, en í þó nokkurri alvöru, til eldgamalla laga frá 1888 um lög um bátfisk í fjörðum, til að minna á að fiskveiðar við Ísland hafa ekki eingöngu verið fyrir þá sem gerðu út heldur líka verið taldar félagslegur réttur — á árum áður var það svo að afli rann að hluta til í fátækrasjóð og þótti engum mikið.

Það er líka fróðlegt, sem ég gerði mér til gamans, að skoða þær reglur sem voru settar á grundvelli þeirra laga um bátfiski í fjörðum sem ég vitnaði til og er enn þá í lagasafninu.

Þar segir, með leyfi forseta, og er rétt að lesa upphaf laganna þar sem segir:

„Vjer Christian hinn níundi, af guðs náð Danmerkur konungur, Vinda og Gauta, hertogi í Sljesvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þjettmerski, Láenborg og Aldinborg,“ setur svofelld lög að tillögu Alþingis.

Þar segir í 5. grein:

„Nú virðist amtmanni ákvarðanir í samþykkt, er honum hefir verið send til staðfestingar, ganga of nærri rjetti manna, eða þröngva um of atvinnufrelsi …“

Ja, framsýnir voru þeir fyrir 130 eða 140 árum. Þetta höfðu menn í huga þá, að ekki mætti setja slíkar reglur að gengið væri of nærri rétti manna vegna atvinnufrelsis þeirra.

Einnig segir:

„Að öðrum kosti staðfestir hann samþykktina, fyrirskipar um birting hennar og ákveður hvenær hún skuli öðlast gildi, og er hún upp frá því skuldbindandi fyrir alla þá, sem í því hjeraði stunda fiskveiðar …“

Sem í því héraði stunda fiskveiðar. Menn voru nefnilega að stýra fiskveiðum héraðsbundið löngu áður en við fórum að hugsa um stjórn fiskveiða og er kannski rétt að minna á það þegar við vorum að tala um, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson áðan, að hér væru stofnbrot og stofnstærðir. Það var einmitt það sem menn unnu út frá fyrir 130, 140 árum. Þannig var það nú, hæstv. forseti.

Síðan segir í 6. gr. þessara laga og ég má til með að vitna í hana í lokin, með leyfi hæstv. forseta:

„Í samþykktum þessum má ákveða um þau atriði, sem áríðandi eru fyrir fiskiveiðar á opnum skipum í því hjeraði, er samþykktin nær yfir, svo sem um það, hver veiðarfæri og beitu skuli hafa við fiskiveiðar, á hverjum stað og hverjum árstíma, og eins um það, hvort fiskilóðir og net megi að færu veðri og forfallalaust og af ásettu ráði liggja í sjó yfir nóttu; og hvernig lóða- og netalögnum skuli haga til þess“ — og takið eftir, hv. þingmenn — „að fiskigöngum eigi sje varnað um skör fram eða handfæraveiði sje spillt.“

Það voru nefnilega kvaðirnar sem á þá voru settar sem vildu nota þorskanetin til að girða af, að mönnum voru settar skorður um það og handfæraveiðin var álitin frjáls öllum mönnum enda eru lögin um rétt manna til bátfiskis í fjörðum.

Ég ætla að láta þetta verða lokaorð mín við umræðuna, hæstv. forseti. Þetta hefur verið ágætisumræða og ýmislegt dregið fram af því sem rétt er að muna. Í lokin vil ég minna á skýrslu Byggðastofnunar frá því í október 2001 um áhrif kvótasetningar aukategunda hjá krókabátum á byggð á Vestfjörðum. Ég held að það væri holl lesning fyrir stjórnarliða að lesa sér til upprifjunar til að þeir geti áttað sig á því hvaða afleiðingar verk þeirra hafa haft. Þessu var nefnilega öllu saman spáð, hvaða afleiðingar þetta hefði, en samt gerðu menn þetta — vonandi með fullu viti, hæstv. forseti.