132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort.

35. mál
[18:59]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa athugasemd og held að hún sé alveg hárrétt. Ég er vanur að vera umhverfismegin í þessu máli og sumum þykir að ég hafi ekki nægilegan skilning á afstöðu framkvæmdaraðilans í mörgum efnum. Það kann að vera rétt. En þarna er hann líka í vanda. Hann er í þeim vanda að hann hefur hugsað sér tiltekna framkvæmd. Hann leggur í, eins og hv. þingmaður sagði áðan, kostnaðarsamar rannsóknir við að kanna náttúruna á því landi. Hann hefur engan samanburð við aðra kosti vegna þess að hann hefur valið þennan úr. Síðan er hann búinn að verja miklu fé til þessara rannsókna, milljónum og tugmilljónum jafnvel, og þess vegna verður hann enn þá einbeittari í því að þarna og hvergi annars staðar skuli framkvæmt. Annars þarf hann að fara á næsta stað og setja þar tugmilljónir í aukarannsóknir. Þetta hygg ég að sé öðruvísi í nágrannalöndunum og kann að vera ein af ástæðunum fyrir því að þar virðist ganga betur að samræma framkvæmdagleði duglegra manna og það tillit til umhverfisins sem þar er nú mun þroskaðra en hér.