132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

37. mál
[19:01]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um tekjuskatt og eignarskatt. Flutningsmenn eru þingmenn Frjálslynda flokksins sem eru ásamt mér hv. þingmenn Magnús Þór Hafsteinsson og Sigurjón Þórðarson.

Mál þetta sem áður hefur verið rætt í þingsölum fjallar um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt er tekur til þeirrar hugmyndar að einstaklingar fái heimild til þess, skv. 1. grein frumvarpsins, að draga frá tekjum sínum áður en til skattlagningar og endanlegs uppgjörs kemur útgjöld vegna sannanlegs ferðakostnaðar til og frá vinnu. Kostnaðurinn verður samt að vera umfram 120 þús. kr. á ári til að teljast frádráttarbær frá árstekjum og getur eigi numið hærri upphæð en 400 þús. kr. samkvæmt frumvarpinu.

Verið er að koma til móts við það að einstaklingar sem geta sýnt fram á kostnað vegna öflunar atvinnutekna hafi heimild til þess að kostnaður sem fellur til vegna atvinnuþátttökunnar verði virtur og draga megi hann frá tekjum, þó að hámarki 400 þús. kr., áður en skattdæmið er endanlega gert upp.

Við leggjum til að frumvarpið taki gildi 1. janúar nk. og komi til framkvæmda við álagningu á árinu 2007. Ef að líkum lætur verður það varla afgreitt fyrir jól úr þessu. Frumvarpið var lagt fram í upphafi þings og er 37. mál þingsins en það er ekki nema rétt mánuður, hæstv. forseti, ef ég veit rétt, í fyrirhugaða þingfrestun sem er 9. desember samkvæmt starfsáætlun. Mér sýnist það því ekki líklegt enda þótt maður leyfi sér að vera svo bjartsýnn að einhvern tíma komi að því að jafnvel þingmönnum stjórnarflokkanna finnist sanngirni í slíkum frádrætti útgjalda einstaklinga við að afla sér tekna og að sá rúmi réttur sem menn hafa hér á landi til að stofna einkahlutafélög sé ekki nauðsynleg forsenda þess að menn geti dregið kostnað við atvinnusókn frá innkomnum tekjum. Það er þekkt aðferð hér á landi að menn stofni einkahlutafélög um starfsemi sína og við það verði kostnaður sem fylgir atvinnusókninni, í hverju sem hún felst, kostnaður við rekstur þess fyrirtækis eða atvinnustarfsemi og menn dragi hann frá tekjum.

Undan þessu fyrirkomulagi hefur reyndar verið kvartað, hæstv. forseti, vegna þess að mörg bæjarfélög hafa bent á að með stofnun einkahlutafélaganna hafi tekjur sveitarfélaganna af útsvarstekjum lækkað verulega vegna þess að bæði hafi menn verið með lægri tekjur en áður og einnig hitt að oft leitist menn við að taka út hluta launa sinna eða hluta þeirrar afkomu sem einkareksturinn gefur með öðrum aðferðum og greiði frekar af því fjármagnstekjuskatt en tekjuskatt.

Mörg rök eru fyrir því, hæstv. forseti, að heimila slíka aðferð hér á landi. Það er þekkt í nágrannalöndum okkar að slíkur frádráttur sé heimill fyrir einstaklinga. Hér er verið að leggja til að teknar verði upp reglur sem ekki eru ólíkar því sem þekkist annars staðar í nágrannalöndum okkar. Við Íslendingar berum oft stöðu okkur saman við stöðu fólks í nágrannalöndunum en það virðist ekki eiga mjög upp á pallborðið hjá hæstv. ríkisstjórn þegar kemur að því að skoða rétt einstaklinga hvað varðar kostnað sem hlýst af atvinnusókn, svo framarlega sem hann er sannanlegur því að sjálfsögðu verður að gera þá kröfu, hæstv. forseti, að þeir sem leggja fram tölur um að þeir eigi rétt á slíku frádragi sýni fram á það með sannanlegum pappírum og rökstuðningi.

Við leggjum ekki til í þessu frumvarpi að þetta ákvæði nái t.d. bara til ferðakostnaðar með eigin ökutæki þó að sá kostnaður sé víða viðurkenndur, m.a. hjá okkur hv. þingmönnum sem þurfum atvinnu okkar vegna að ferðast vítt og breitt um landið og fáum greiddan þann ferðakostnað sem af því hlýst en höfum auðvitað kostnað á móti. Þekkt er hjá fyrirtækjum í mörgum atvinnugreinum að menn hafi svokallaða bílastyrki og þurfi að færa akstursdagbækur og það er auðvitað eðlilegt að menn þurfi að sanna þann kostnað sem þeir leggja út fyrir. Okkur þingmönnum er ætlað að færa akstursdagbók til að sanna til hvers við notum ferðir okkar o.s.frv. og halda utan um og sýna fram á kostnað við rekstur ökutækis vegna atvinnu okkar. Hér er hins vegar ekki lagt til að þetta tengist ökutæki beint heldur er þetta almenn grein sem nær til alls ferðamáta, hvort sem menn nota eigin bifreið, hópferðabíla, ferjur eða flugvélar til að ferðast til og frá vinnu sinni. Ef menn á annað borð geta fært sönnur á að tilgangur ferðarinnar sé að komast á vinnustað og afla tekna mega þeir draga þann kostnað sem tengist störfum þeirra frá tekjum til skatts.

Við teljum að hér sé um sanngirnismál að ræða ef þessi kostnaður er sannaður og sé til staðar við öflun atvinnutekna. Samkvæmt frumvarpinu er meginmarkmiðið einkum að koma til móts við þá sem þurfa að sækja vinnu um langan veg og bera af því mikinn kostnað þó svo að það sé í raun og veru ekki skilyrði heldur eingöngu að menn sanni að kostnaðurinn verði til. Við leggjum hvorki mælistiku á kílómetravegalengd né fargjaldakostnað heldur að viðkomandi aðili verði að leggja fram sönnunargögn til að eiga rétt á því frádragi sem lagt er til í frumvarpinu.

Við teljum að ýmislegt geti unnist við að heimila það sem hér er lagt til. Við teljum að frumvarpið samrýmist stefnu sem lögð hefur verið fram m.a. í byggðamálum sem felst í því að stækka sveitarfélög og stækka atvinnusvæði og gera fólki t.d. á landsbyggðinni kleift að ferðast á milli staða til að stunda vinnu sína. Það er þekkt að mikill ferðakostnaður getur hamlað þeirri þróun að menn sæki vinnu á milli staða og að ferðir á milli staða á vinnustað draga úr samkeppnishæfni byggðarlaga um vinnuafl. Eins og málið er sett fram í frumvarpinu ætti það að geta mætt þessu a.m.k. að hluta til.

Síðan má vekja athygli á því að mikill ferðakostnaður getur verið vinnuletjandi með þeim afleiðingum að menn sjá t.d. frekar hag í því að þiggja atvinnuleysisbætur en sækja vinnu í næsta byggðarlag. Það er vissulega staða sem menn geta hæglega staðið frammi fyrir því stundum þarf að hafa fyrir því að sækja atvinnu í næsta byggðarlag. Við teljum að hér sé verið að koma til móts við það að menn geti jafnvel búið þó nokkuð fjarri vinnustað sínum en sótt atvinnu til annarra byggðarlaga og að hluta til verði þeim kostnaði mætt.

Þetta getur líka orðið til þess að verði fólk atvinnulaust einhverra hluta vegna þarf það ekki að bregða búi, flytja á milli byggðarlaga, a.m.k. ekki strax ef tækifæri gefst til að stunda atvinnu fjarri heimilinu um tíma og kostnaðurinn sem því er samfara er viðurkenndur og draga má hann frá tekjum. Ég held að þetta gæti hreinlega orðið til þess að atvinnusókn milli byggðarlaga yrði almennari og að í sumum byggðarlögum sem orðið hafa fyrir skakkaföllum í atvinnutækifærum, m.a. vegna tilfærslu á aflaheimildum sem oft eru mjög ófyrirséðar og erfitt að gera áætlanir um hvort útgerð og fiskvinnsla leggst af í einhverju plássi, kæmi þessi heimild mjög til góða fyrir þá íbúa sem yrðu fyrir slíku og þyrftu einhverra hluta vegna að sækja vinnu um lengri veg.

Ég held að þetta sé jákvætt mál fyrir byggðaþróun og fyrir það að menn geti horft til þess að það sé jafnvel kostur að búa allfjarri vinnustað sínum. Það kunna að vera margar ástæður fyrir því. Það getur verið verðlag á húsnæði eða skólasókn barna í fjölskyldunni o.s.frv. og menn þurfi að horfa til þess. Við getum líka litið svo á að auðveldara verði að sækja atvinnu í Norðurál í Hvalfirði frá t.d. Reykjanes- og Reykjavíkursvæðinu ef sá kostnaður sem menn þurfa að leggja út fyrir vegna þeirrar atvinnusóknar fengist viðurkenndur samkvæmt þessu frumvarpi. Við vonumst vissulega til þess, einkum þingmenn Norðvesturkjördæmis að áframhaldandi uppbygging verði í Hvalfirði og að þangað geti menn sótt atvinnu af þó nokkuð stóru svæði, bæði af Vesturlandi og vafalaust líka norður yfir Hvalfjörðinn, þeir sem sunnan við búa.

Hæstv. forseti. Við teljum því að þetta mál þjóni ýmsum réttlætissjónarmiðum og hagkvæmnissjónarmiðum og geri það að verkum að menn stundi frekar en ella atvinnu sem einstaklingar en leiti sér ekki leiða til þess að stofna einkahlutafélag um sína starfsemi frekar en orðið er, en sú þróun hefur verið rík hér á landi á undanförnum árum að þannig hefur hagað til.

Ég lít því svo á að þetta mál eigi margar réttlætishliðar og sé í raun t.d. miklu betra mál en skattastefna ríkisstjórnarinnar sem gengur út á það að þeir skuli fá mestan skattaafslátt sem hæstar hafa tekjurnar. Það er skattastefna sem gengur í þá veru að lækka tekjuskattsprósentuna og fer einnig þá leið að fella niður hátekjuskattinn. Hún þjónar þeim markmiðum að þeir sem hæstar hafa tekjurnar í þessu þjóðfélagi njóta þeirrar stefnu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks alveg sérstaklega.

Í þessari tillögu okkar förum við ekki þá leið. Við leggjum það til að einstaklingur sem stundar atvinnu fái þessa takmörkuðu heimild, hæst 400 þús. kr. frádrátt vegna atvinnustarfsemi sinnar, og þar af leiðandi geti hann hugsanlega stundað atvinnu utan búsetusvæðis síns verulegan hluta ársins ef svo skiptir.

Við höfum nú einnig lagt það til í Frjálslynda flokknum, og höfum tekið um það nokkra umræðu í hv. þingi, að við teljum miklu meira réttlæti fólgið í því varðandi lagfæringu á skattalöggjöfinni að hækka persónuafsláttinn og færa þannig íbúum landsins jafnan krónutölufrádrátt frá tekjuskatti frekar en fara þá leið sem ríkisstjórnin hefur valið, þ.e. flata prósentulækkun í tekjuskattinum og að afnema hátekjuskattinn núna á síðustu tveimur árum í áföngum þannig að hann falli niður í framtíðinni.

En menn líta misjöfnum augum silfrið, eins og sagt er og það er greinilegt, hæstv. forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn einkanlega, með dyggum stuðningi Framsóknarflokksins, hefur þá skýru stefnu að vilja umbuna þeim mest í skattatilfærslum og skattalækkunum sem hæstar hafa tekjur í þjóðfélaginu á kostnað þeirra sem lægri tekjur hafa. Þetta vitum við og eigum eftir að taka um þetta fleiri snerrur hér í haust, sérstaklega í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna. Verkalýðshreyfingin hefur gert athugasemdir við þessa stefnumótun ríkisstjórnarinnar en það er ósköp lítið um svör í þá veru hjá ríkisstjórninni að breyta neinum áætlunum sínum í skattamálum, hversu illa sem sú útfærsla kemur við þá sem lægri hafa launin en hyglir þeim sem hæst hafa launin. Með slíkri stefnu er verið að auka misrétti í þjóðfélaginu og það veldur því að erfiðara verður að ná sátt við verkalýðshreyfinguna í þeim málum sem verkalýðshreyfingin hefur núna uppi í viðræðum, m.a. við ríkisvaldið, heldur en ef það hefði nú komið á borðin að ríkisstjórnin væri tilbúin að endurskoða skattastefnu sína þannig að hagsmunir launamanna yrðu betur virtir, m.a. með því að hækka persónuafsláttinn.

Hæstv. forseti. Það er mikið áhyggjumál ef til þess þarf að draga að hér verði jafnvel átök á vinnumarkaði. Allar horfur eru á því að kjarasamningunum verði sagt upp og maður heyrir á orðum verkalýðsforingja að þeim finnst lítið til koma um undirtektir ríkisstjórnarinnar varðandi þau mál sem verkalýðshreyfingin hefur viljað ræða eða foringjar hennar við ríkisstjórnina á undanförnum dögum og af því ber að hafa áhyggjur.

Þetta litla mál sem við ræðum og snýst um að fólk megi draga kostnað frá atvinnutekjum sínum gæti verið vísir í þá veru að menn mundu meta það einhvers í verkalýðshreyfingunni að fólk sem hefur tiltölulega mikinn kostnað af ferðalögum til að sækja atvinnu fái það með einhverjum hætti dregið frá tekjum. Ég er ekki að segja að þetta mál mundi ráða úrslitum í þá veru en það gæti vissulega orðið til nokkurra bóta. En ég á ekki von á því kannski frekar en verkalýðsforingjarnir að ríkisstjórnin sjái neitt jákvætt við það sem aðrir leggja til málanna. Það hefur jafnan verið einstrengingslegur málflutningur af hendi ríkisstjórnarinnar og forustumanna hennar í því sem snýr að skattamálum og þar hefur ekki verið hlustað á nein rök annarra en þeirra sjálfra. Þetta er dæmi um einkennilega stjórnarhætti. Þetta eru í raun stjórnarhættir sem bera keim af því að menn hafa setið allt of lengi við völd og trúa því og treysta að þeim líðist allt hvað svo sem þeir leggja til og að fólkið í landinu gleymi því við næstu kosningar.

Ég vonast til að svo verði ekki og að launþegar þessa lands muni það þegar kemur að kosningum að stefna ríkisstjórnarinnar í skattamálum hefur ekki aukið á jafnræði þegnanna í þessu landi heldur þvert á móti. Hún hefur tekið á því sérstaklega að þeir fá meira sem hæstar hafa tekjurnar.

Í því sambandi, hæstv. forseti, má minnast greinar sem fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins og formaður, Sverrir Hermannsson, skrifaði sérstaklega til fyrrverandi fjármálaráðherra og kallaði þakkarávarp. Þar þakkaði hann fyrir það sem hátekjumaður hversu miklar skattalækkanir hann hefði fengið af hendi ríkisstjórnarinnar og þær höfum við hv. alþingismenn auðvitað fengið líka. En láglaunafólkið hefur setið eftir og mun halda áfram að greiða tiltölulega há gjöld. Þrátt fyrir það að í stefnu ríkisstjórnarinnar sé verið að lækka skatta þá kemur það láglaunafólkinu ekki til góða. En sú stefnumótun sem ríkisstjórnin hefur uppi kemur mér og hæstv. forseta til góða og við munum njóta þess alveg prýðilega. En það er lítið um uppbót til launþeganna.