132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Fyrirhugaðar álversframkvæmdir.

[13:42]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það skortir sárlega á stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Það veit enginn hvað þessi ríkisstjórn vill í atvinnumálum annað en að hún vill auðvitað byggja álver. Það liggur fyrir. (AKG: Það er stefna hennar.) Já, en það liggur ekkert fyrir um hvernig menn ætla að skipa þeim málum. Það er ekki til endalaus mengunarkvóti, samkvæmt því sem fyrir liggur núna. Það hlýtur að þurfa að velja og hafna þegar ákveðið verður hvar menn ætla að hafa þau álver sem verða byggð. Það liggur ekkert fyrir um hvað menn vilja gera með það. Ég tel undarlegt, úr því að menn hafa uppi stóriðjustefnu sem þessa, að menn skuli ekki halda á lofti því sem menn vilja að gerist.

Nú standa yfir átök milli landshluta um hvar næsta álver verði byggt. Það er álver í Hafnarfirði. Ég býst við að margir líti þannig á að ekki væri óeðlilegt að stækkun gæti orðið þar. En ýmsir líta einnig þannig á að eðlilegt væri að snúa sér að því að aðrir landshlutar njóti umbóta í efnahags- og atvinnumálum. Þetta verða menn auðvitað að vega og meta.

Það þarf síðan að skoða í samhengi við það hvort Ísland getur haldið þessu áfram. Mengun getum við ekki haldið áfram að skapa endalaust. Það liggur ekki fyrir neitt um það. Viðbæturnar eru líklega upp á eitt álver eða svo en ekki mörg. Það þarf auðvitað að fá botn í hvað menn ætla sér því að ég geri ekki ráð fyrir því að vinsælt verði til framtíðar ef íslensk stjórnvöld ætla að draga fjölmarga aðila á asnaeyrunum hvað varðar möguleika á því að byggja upp stóriðju í þessu landi. Það er nefnilega ekki hægt, miðað við þær aðstæður sem fyrir liggja núna, að byggja upp öll þau álver sem hafa verið talin upp.