132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Athugasemd.

[13:49]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er reyndar rétt að taka fram til að ekkert misskiljist að inni í 600 megavatta tölu fyrir viðbótarorkuframleiðslu í Þingeyjarsýslum er Skjálfandafljót um 150 megavött í vatnsafli.

Fólkið í landinu, sagði hæstv. forsætisráðherra, fólkið í landinu er að hugsa til framtíðar, er það ekki gott? Jú, það er gott ef fólkið í landinu gerir það. En ég er ekki viss um að það sé eins gott að ríkisstjórnin sé að hugsa fyrir hönd fólksins í landinu til framtíðar, þeirrar framtíðar einnar sem hún sér. Það er nefnilega það sem er að gerast hér. Það er nefnilega ekki fólkið í landinu sem drífur þessa stefnu áfram. Eru það einkaaðilar, einstaklingar eða einkafyrirtæki sem hér ráða ferðinni? Nei. Eru það innlend almenningshlutafélög? Nei. Það er ríkisstjórnin og það er fenrisúlfur íslenskra umhverfismála, hið opinbera fyrirtæki Landsvirkjun. Þetta eru opinber verkefni í hólf og gólf í samstarfi við erlend fjölþjóðafyrirtæki og eiga ekkert skylt við það sem fólkið í landinu, almenningur eða hið almenna atvinnulíf, gæti hugsað sér að gera.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð er einmitt að reyna að hugsa um framtíðina í þessu landi, að hér verði byggð upp fjölbreytt og framsækin atvinnustefna og atvinnulíf en ekki öllu veðjað á þennan eina málm eða þetta eina frumefni, aluminíum, og að öðru atvinnulífi verði meira og minna rutt til hliðar.

Nú segja menn það berum orðum: Það verður enginn almennur útflutnings- og samkeppnisiðnaður í landinu ef svo heldur sem horfir. Ferðaþjónustan hrynur, rækjuiðnaðurinn er að deyja og fleiri greinar sjávarútvegsins þola þetta ástand ekki. Hvað er það með hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn? Eru menn algjörlega ónæmir fyrir þessu? Hvað hefur gerst? Hvaða tjöld voru dregin fyrir skilningarvitin svona hrottalega að meira að segja hæstv. sjávarútvegsráðherra, runninn upp úr sjávarplássi, skuli ekki geta rætt einu orði um (Forseti hringir.) ástandið í hinu almenna efnahags- og atvinnulífi (Forseti hringir.) en setur á gömlu ræðurnar, jafnmálefnalegar og þær nú eru, um að Vinstri hreyfingin – grænt framboð sé á móti framförum og guð má vita hvað?