132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Athugasemd.

[13:51]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tala eins og það hafi orðið eitthvert stórslys í landinu í dag. Hvaða ákvörðun hefur verið tekin um byggingu nýs álvers? Engin. Það er verið að skoða þessi mál, það er verið að athuga hvort hægt sé að afla orku. Hverjir eru að því? Er það ekki fólkið í kjördæmi hv. þingmanna sem er að því, á Húsavíkursvæðinu, á Norðausturlandi? (Gripið fram í.) Síðan koma hv. þingmenn þessa kjördæmis (Gripið fram í.) og tala eins og það sem er að gerast á Austurlandi sé meiri háttar slys.

Hafa hv. þingmenn ekki ferðast um þetta kjördæmi upp á síðkastið? Hafa hv. þingmenn ekki séð hvaða kraftur hefur komið í þetta kjördæmi? Mér finnst, frú forseti, sorglegt að hlusta á þennan málflutning.

Nú eru aðilar, m.a. í þessu kjördæmi, að athuga hvort ekki sé hægt að nýta orkuna á Norðausturlandi, hugsanlega til álvers. Er það slys? Er það slys að menn hugi að því hvort til greina komi að stækka í Straumsvík? (Gripið fram í.) Hverjum hefur dottið það í hug? (SJS: Og hvenær kemur stefnan?) Það er verið að skoða þessi mál.

(Forseti (RG): Ég bið þingmenn að gefa ræðumanni hljóð.)

Mér finnst að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eigi bara að taka þátt í þessari umræðu með málefnalegum hætti og útiloka ekki fyrir fram ákveðna atvinnukosti. Það er alveg eins og þeir vilji bara banna ákveðin trúarbrögð hér á landi. (Gripið fram í.) Menn verði bara að hafa eina trú og það megi (Gripið fram í.) ekki nokkur maður segja neitt annað.

Ég heyri það á hv. þingmönnum að þeir hafa ekki einu sinni þolinmæði í það að taka þátt í umræðu um þessi mál. Það er allt í lagi mín vegna. Þá skulu bara hv. þingmenn efna til fundar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og hlusta þar á félaga sína. Ég held að það sé langbest.

(Forseti (RG): Ég bið þingmenn að virða þingsköp og gefa ræðumönnum hljóð og ég bið ræðumenn að virða tímamörk.)