132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Framkvæmd þingsályktunar um stofnun sædýrasafns.

103. mál
[13:54]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég gladdist mjög í hjarta mínu fyrri hluta árshelmings 2004 þegar tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins mæltu fyrir þingsályktunartillögu, sem hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna kosti og hagkvæmni þess, með tilliti til ferðaþjónustu og almannafræðslu um lífríki hafsins, að byggt verði upp á höfuðborgarsvæðinu veglegt sædýrasafn sem yrði í senn lifandi fiskasafn og fróðleiksnáma um lífríki Norður-Atlantshafsins, rannsóknir og vísindi, verndun og nýtingu fiskstofnanna og umgengni um hafið. Ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis um kosti og galla slíks safns ásamt kostnaðarútreikningi og tillögu að mögulegri fjármögnun, rekstrarformi og eignarhaldi fyrir 1. september 2004.“

Hvers vegna gladdist sá sem hér stendur? Ég hef lengi verið áhugamaður um það að við Íslendingar kæmum okkur upp svona sædýrasafni, safni þar sem fólki gæfist kostur á að skoða lífríkið í hafinu, fiska og önnur sjávardýr, jafnvel sjávarspendýr. Söfn af þessu tagi eru víða um heim, m.a. í nágrannalöndum okkar, og eru alls staðar mjög vinsæl, bæði fyrir skólafólk og ferðamenn en einnig eru þau notuð til vísindarannsókna.

Það er ljóst að við Íslendingar höfum ekki haft svona safn um margra ára skeið. Það var einu sinni sædýrasafn í Hafnarfirði en því var lokað fyrir mörgum árum og síðan höfum við aðeins haft örlitla sprota að svona söfnum. Þar má kannski helst nefna safnið í Vestmannaeyjum en einnig hafa aðrir reynt fyrir sér í þessum efnum en því miður ekki gengið sem skyldi. En ég tel fyrir löngu tímabært að við Íslendingar skoðum þessi mál af fullri einurð og alvöru. Þess vegna gladdist ég þegar hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir og Gunnar Birgisson lögðu fram þessa þingsályktunartillögu. Þingsályktunartillagan var síðan samþykkt þann 27. maí árið 2004, lítillega breytt. Það eina sem breyttist í henni var það að skilafresturinn, sem mælt var fyrir um í tillögunni, var lengdur. Ríkisstjórninni var falið að skila þessari skýrslu fyrir 1. mars árið 2005. Þetta var samþykkt hér á hinu háa Alþingi í atkvæðagreiðslu 27. maí 2004 af öllum þeim þingmönnum sem þá voru í salnum, m.a. af hæstv. forsætisráðherra núverandi, hv. þm. Halldór Ásgrímssyni, en einnig af þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddssyni, 51 þingmaður sagði já við þessari tillögu.

En ég hef ekki orðið var við það, virðulegi forseti, að þessari skýrslu hafi verið skilað hingað til Alþingis og þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað er að frétta af þessari skýrslu?