132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Framkvæmd þingsályktunar um stofnun sædýrasafns.

103. mál
[14:04]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa lagt áherslu á hve mikilvægt það er að vera með sérstakt sædýrasafn vegna þess hve sjórinn, hafið og lífið í hafinu er mikilvægt í atvinnulífi okkar og lífi allra landsmanna á þeirri eyju sem Ísland er og það er ekki síður mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna. Nánast hvar sem maður kemur í heiminum þar sem þjóðir byggja mikið á hafinu eru stór sædýrasöfn. Þau eru ekkert endilega í tengslum við önnur náttúruminjasöfn. Ég gleymi því aldrei þegar ég kom í sædýrasafn bæði í Sydney í Ástralíu og í Auckland á Nýja-Sjálandi. Það var ógleymanlegt sem maður upplifði þar. Ég hefði viljað sjá sambærileg söfn hér og það fyrr en síðar.