132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Framkvæmd þingsályktunar um stofnun sædýrasafns.

103. mál
[14:08]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að lýsa því yfir að svar hæstv. forsætisráðherra olli mér mjög miklum vonbrigðum. Í því felst að ríkisstjórnin hefur hreinlega hunsað vilja Alþingis í þessu efni. Ekki hefur farið fram nein vinna til að gera þessa skýrslu sem ríkisstjórninni er falið að gera og skila af sér til Alþingis fyrir 1. mars árið 2005. Svo einfalt er það. Það hefur ekki farið fram nein vinna í þessu máli og mér finnst það vera mjög alvarlegt þegar vilji Alþingis er hunsaður með þessum hætti.

Þá rifjast upp fyrir mér annað mál sem ég spurði um í fyrra sem var það að Alþingi ályktaði á sínum tíma um að skipuð yrði nefnd sem ætti að skoða möguleikana á því að endurreisa stofn Þingvallaurriðans. Sú nefnd var aldrei skipuð þó að fyrir lægi þingsályktun um að gera slíkt. Þetta eru náttúrlega algerlega ótæk vinnubrögð og ég tel að með þessum vinnubrögðum séum við að glutra niður dýrmætum tíma.

Við værum stödd allt annars staðar í dag með þessar hugmyndir ef farið hefði verið skipulega í það vorið 2004 að útbúa þessa skýrslu, skoða þessa möguleika, reikna út kostnað, koma með tillögu að fjármögnun, rekstrarformi, eignarhaldi og jafnvel staðsetningu. Ég vil leyfa mér að benda á að það eru fjölmörg sveitarfélög um allt land sem eru reiðubúin til að taka við svona safni. Það má nefna Sandgerði eins og bent var á hér áðan. Þar er fyrir hendi nú þegar mjög áhugaverður sproti og þar eru fyrir hendi mjög góðar landfræðilegar aðstæður. Nefna má fleiri staði á Reykjanesi. Það má nefna Vestmannaeyjar. Það má líka nefna stað eins og Akranes. Það má jafnvel nefna höfuðborgarsvæðið. Það eru ótal sveitarfélög sem eru reiðubúin til að taka þetta að sér. Fyrir hendi er mikill áhugi í landinu, leyfi ég mér að fullyrða, áhugi hjá nánast öllum nema ráðherrum í ríkisstjórn Íslands. Það ber að harma.