132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Aðgerðir til að bæta heilbrigði Íslendinga.

157. mál
[14:21]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar að nota tækifærið, þar sem hæstv. forsætisráðherra er að ræða þessi mál og hefur nú nýverið sett á laggirnar þennan faghóp sem var samþykktur síðasta vor, og nefna einn ákveðinn þátt sem ég tel að við verðum að skoða í tengslum við þessa umræðu og þessi hópur verði að taka tillit til og skoða vel þegar hann er að störfum. Sá þáttur lýtur að aðgengi að hollum matvælum og hvort við getum með stjórnvaldsaðgerðum, t.d. í gegnum niðurgreiðslu á landbúnaðarvörum, í gegnum innflutningsgjöld og tolla og skatta af matvælum, stýrt með ákveðnum hætti verðlagi á hollum vörum. Eins og málum er nú háttað er ódýrara að ganga út úr búð með fullan poka af óhollustu heldur en af hollum, góðum og hreinum vörum. Þessu þarf að breyta.