132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Aðgerðir til að bæta heilbrigði Íslendinga.

157. mál
[14:24]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil auðvitað fagna því að búið sé að setja þessa nefnd á laggirnar. Ég vænti mikils af starfi hennar eins og við gerum öll í heilbrigðisnefndinni sem stóðum að því að vinna að þessu máli og samþykkja það í vor. En það er alveg ástæðulaust af hæstv. forsætisráðherra að vera eitthvað önugur þó hann sé spurður út í fréttaflutning af nefndaskipan. Það er fullkomlega eðlilegt að það sé spurt þegar formaður Félags um lýðheilsu segir hluti eins og þessa og full ástæða til að nefna það hér.

Ég var ekki að taka afstöðu til þess hverjir væru þarna skipaðir heldur spurði út í þetta og verð að segja það eins og er að Jón Óttar Ragnarsson, sem hefur verið nafngreindur hér, er náttúrlega mjög vel menntaður. Hann er flinkur maður, var hér með sjónvarpsþætti um hollustumál og hreyfingu og hefur gert marga góða hluti. Aftur á móti er hann þekktastur núna fyrir mjög óhefðbundnar leiðir í að ná umræddum markmiðum, sem eru duft og pillur, eins og formaður Félags um lýðheilsu, Geir Gunnlaugsson læknir, segir í þessum fréttum og þess vegna veltir maður fyrir sér hvort það séu einhverjar áherslur sem hæstv. ráðherra setur í þessu máli.

En ég vil ítreka það að ástæðan fyrir því að þetta fór til forsætisráðuneytisins er auðvitað sú að þetta er mjög stórt mál og kemur við marga þætti og er víðfeðmt. Ég treysti hæstv. ráðherra til að skoða þetta en vil gjarnan fá það upplýst frá honum hvort þarna séu einhverjar nýjar áherslur á ferðinni um það að hægt sé að stytta sér leið til að ná niðurstöðu í þeim offituvanda sem þjóðir heims standa frammi fyrir.