132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Frávísanir í framhaldsskólum.

113. mál
[14:29]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Framhaldsskólinn á að vera fyrir alla sem þangað vilja sækja sér menntun. Þannig hefur það verið og þannig er það samkvæmt stefnu menntamálayfirvalda að því er ég best veit. En á haustönn árið 2004, fyrir rúmu ári síðan, gerðist þaðl að fjölmargir nýnemar og þeir sem sóttu um skólavist voru lengi að fá svar frá skólanum. Skólarnir gátu ekki tekið við þeim stóra árgangi sem þá kom í skólana. Ekki hafði verið gert ráð fyrir því af hálfu yfirvalda að á ferðinni væri mjög stór árgangur og árgangar sem framhaldsskólinn þyrfti að hýsa.

Ég spurði hæstv. menntamálaráðherra að því í fyrra hve mörgum hefði verið vísað frá námi í framhaldsskólum á þeirri önn sem hér um ræðir, árið 2004. Samkvæmt því svari fengu, að því er talið var, allir nýnemar skólavist, en ekki var vitað um afdrif eldri nemenda þar sem ekki var um að ræða samræmda skráningu upplýsinga um skólavist. Það er í sjálfu sér fráleitt að ekki sé haldið utan um samræmda skráningu á svo mikilvægum grundvallarupplýsingum sem aðgengi að framhaldsskólanum er. Ekki síst vegna þess að þegar verið er að vísa frá í framhaldsskólunum og velja inn eftir einkunnum verða þeir sem hafa lægstar einkunnir og eru viðkvæmastir fyrir raski og rugli af hálfu yfirvalda verst úti. Mörgum var vísað frá og sérstaklega þeim sem vildu koma aftur til náms eftir að hafa, það sem kallað er, fallið á brott og gert hlé á námi sínu. Það er að sjálfsögðu óviðunandi staða að framhaldsskólinn geti ekki sinnt því grundvallarhlutverki sínu að mennta þá einstaklinga sem þangað vilja sækja og þangað eiga að geta sótt.

Því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra: Hve mörgum sem sóttu um skólavist í framhaldsskóla haustið 2005 var vísað frá, sundurliðað eftir skólum? Hve margir sóttu um skólavist í framhaldsskóla eftir að hafa hætt tímabundið námi? Hve margir fengu ekki inni í neinum skóla? Er það viðurkennd stefna stjórnvalda að þeir sem sækja um framhaldsskólavist eftir námshlé eigi ekki skýlausan rétt á skólavist?

Nú getur það varla verið svo að fjölgun framhaldsskólanema og þeirra sem þangað vilja sækja eigi að mæta með þeirri undarlegu tillögugerð sem nú er uppi um að stytta framhaldsskólanám, stytta stúdentspróf eða skerða það að því er virðist í sparnaðarskyni. Að því er virðist til að spara 2 milljarða á ári, 18% rekstrarkostnaðar. Við hljótum að vilja byggja vel yfir og ég trúi því að hæstv. menntamálaráðherra muni beita sér fyrir því að allir sem vilja sækja um vist í framhaldsskólanum fái þar inni og að hún hafi kallað eftir samræmdum upplýsingum um þetta mál, samræmdum upplýsingum sem lágu ekki fyrir í fyrra. Ég beini því þeirri fyrirspurn sem hér var mælt fyrir til hæstv. menntamálaráðherra.