132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Frávísanir í framhaldsskólum.

113. mál
[14:38]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Björgvini G. Sigurðssyni þessa ágætu fyrirspurn. Það kann að hljóma lág tala að aðeins 119 nemendum sé vísað frá í framhaldsskólum. En fyrir mér er það alvarlegt mál að einum einasta nemanda sé vísað frá framhaldsskólanámi og ég tala ekki um þegar um er að ræða nemendur sem eru að reyna að hefja nám aftur eftir nokkurt hlé. Oft er um að ræða mjög stóra ákvörðun og það er hár þröskuldur sem viðkomandi einstaklingur þarf að stíga yfir. Það vita allir, og þeir sem nú ráða ferðinni í íslensku samfélagi eiga að vita, að menntun er alger undirstaða fyrir framtíð Íslendinga. Þess vegna eru allar tölur of háar. Þess utan fá skólarnir ekki greitt samkvæmt skólasamningum og get ég nefnt Fjölbrautaskóla Vesturlands sem dæmi um það.