132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Frávísanir í framhaldsskólum.

113. mál
[14:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er eitthvað að í menntakerfi sem vísar frá 120 einstaklingum sem vilja snúa aftur til náms eftir hlé, rétt eins og 120 börnum væri vísað frá grunnskóla. Með sama hætti eiga þeir sem sækja um nám í framhaldsskóla að fá þar inni. Það er eitthvað að í menntakerfi sem það gerir og á sama tíma er veifað yfir hausamótum framhaldsskólakerfisins tillögu um skerðingu náms til stúdentsprófs og sparnaði upp á tæpa 2 milljarða á ári í rekstri skólanna um leið og þær staðreyndir liggja fyrir að ekki er hægt að taka á móti þeim sem í skólana sækja.

Þetta eru alvarlegar staðreyndir og hlýtur að kalla á endurskoðun á framhaldsskólakerfinu og skólakerfinu öllu þar sem samfella skólastiganna er gaumgæf og flæði þar á milli tryggt enn þá betur og sérstaklega með það fyrir augum að framhaldsskólinn verði fluttur til sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafi með að gera rekstur leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Með því tryggjum við samfelluna á milli skólastiga og þannig styttum við námstíma til stúdentsprófs á milli áfanga skólanna og grunnskólanna hjá þeim sem við það ráða og sækjast eftir því. Það er kjarni málsins. Ég er sannfærður um að þessi vandræðagangur með að vísa fólki frá, vísa 120 einstaklingum sem vilja snúa aftur til náms frá, væri ekki uppi ef framhaldsskólinn væri rekinn af sveitarfélögunum. Svo miklu meiri kraftur og svo miklu meiri metnaður er í rekstri grunnskóla nú en þegar ríkið hafði með þá að gera að ég er sannfærður um að sá sami metnaður, sá sami kraftur verði til staðar í rekstri framhaldsskólans ef hann yrði færður til sveitarfélaganna frá miðstýringu ríkisvaldsins. Ég er sannfærður um það og ég vona að við sjáum þá þróun eiga sér stað á næstu árum að framhaldsskólinn fari til sveitarfélaganna og þessi vandamál verði leyst og hann verði rekinn með reisn.