132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Frávísanir í framhaldsskólum.

113. mál
[14:47]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Á stundum virkar það eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sé frá Mars en búi ekki á móður jörð miðað við þá sýn sem hann hefur á menntamál landsins og að framhaldsskólinn eigi að fara til sveitarfélaganna. Að sjálfsögðu er rétt að ræða það en það er tilefni til miklu lengri umræðna. En þar eru mjög athyglisverð sjónarmið sem hægt er að benda á í tengslum við slíkan flutning sem sérstaklega mundi koma niður á landsbyggðarsveitum og bæjum landsins. Við getum tekið umræðu um það síðar.

Rétt er að ítreka að framhaldsskólinn er opinn öllum. 119 einstaklingar hafa sótt um framhaldsskólavist og ekki komist að, m.a. út af hverju? Út af því t.d. að ákveðnar brautir eru nú þegar fullar. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að þeir hafa ekki komist inn en meginástæðan er þó sú. Það sem við skulum hafa sérstaklega í huga er að við erum að auka fjármagn til framhaldsskólastigsins nú sem aldrei fyrr og ég bið hv. þingmenn að skoða sérstaklega hvað er á fjárlögum fyrir næsta ár. Það er sérstaklega haft í huga að framhaldsskólinn eigi að vera opinn öllum.

Ég vil líka nefna og það var tilgangur minn áðan að benda á þessa 0,6% tölu, að það er sérstaklega hægt að segja um áætlun ráðuneytisins varðandi framlögin til framhaldsskólastigsins að hún er að reyna að ná yfir alla þá sem sækja um í framhaldsskólana. Ekki er hægt að segja að við séum ekki að taka tillit til allra sem eru að sækja um í framhaldsskólunum. Framhaldsskólinn er opinn öllum og við erum búin að tryggja fjármagn til þeirra hluta. Sumir komast ekki inn í MR af því að hann er fullur. Það sama er hægt að segja um Verslunarskólann. Hægt er að færa eðlilegar röksemdir fram fyrir því af hverju þetta fólk komst ekki inn í framhaldsskólann. Framhaldsskólinn er og verður opinn öllum.