132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Óhollt mataræði í skólum.

160. mál
[14:49]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér er hollustan ofarlega í huga í dag og er með fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um óhollt mataræði í skólum og spyr hæstv. ráðherra hvort komið hafi til umræðu að hún beiti sér fyrir því að óhollur matur verði ekki á boðstólum í skólum landsins.

Mikil vakning hefur orðið um bætta hollustu í mataræði hjá börnum. Grunnskólarnir hafa tekið verulega á þessum málum og komin eru mötuneyti þar sem passað er upp á að börnin fái hollt mataræði og sama er náttúrlega á leikskólastiginu, ég hef fylgst með því. En síðan hafa foreldrar kvartað yfir því að þegar börnin þeirra koma í framhaldsskólana er nokkuð annað upp á teningnum. Þá sé meira verið að sækja í sælgæti, gosdrykki og aðra óhollustu.

Ég gerði smákönnun á því hvernig staðan væri í framhaldsskólum landsins og hafði samband við alla framhaldsskóla. Þar er það þannig að fjórðungur allra framhaldsskóla er ekki með mötuneyti en þeir eru allir með sjoppur eða þá þeir selja sælgæti, gosdrykki og aðra óhollustu í mötuneytunum. Þess vegna fannst mér ástæða til að kalla eftir því hjá hæstv. ráðherra hvort hún hyggist bregðast á einhvern hátt við þessu. Nú er forsætisráðuneytið farið af stað með vinnu sína um hollustumálin og nágrannalönd okkar hafa verið að taka á þessum þáttum í skólunum, m.a. hafa Bretar ákveðið að banna allt ruslfæði í enskum skólum. Matur sem ríkur er af salti, fitu og sykri verður bannaður með öllu í breskum skólum innan árs. Þetta tilkynni Ruth Kelly, menntamálaráðherra Breta, á landsfundi breska Verkamannaflokksins í haust. Þeir banna einnig alla sjálfsala og sjoppur þar sem verið er að selja gos, sælgæti og flögur eins og það er kallað, kartöfluflögur eða hvað það er.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún ætli að leggja þeirri vinnu lið sem farin er af stað, eins og t.d. hjá forsætisráðherra, og leggja þarna lóð á vogarskálarnar og banna eins og Bretar og reyndar ýmsir Norðurlandabúar hafa gert, óhollustu sem er á boðstólum í íslenskum framhaldsskólum því ég veit að ástandið er þokkalegt í grunnskólunum.