132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Óhollt mataræði í skólum.

160. mál
[14:52]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég fékk fyrirspurnina til mín sem hljóðaði svo:

„Hefur komið til umræðu að ráðherra beiti sér fyrir því að óhollur matur verði ekki á boðstólum í skólum landsins?“

Ég ætla að taka leikskólann og grunnskólann líka inn í svar mitt en þeir eru eins og við vitum, ég og hv. þingmaður og kannski hugsanlega einhverjir fleiri í viðbót, reknir af sveitarfélögunum. (Gripið fram í.) Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, það er ekki víst að allir viti það að leikskólar og grunnskólar séu á forræði sveitarfélaganna. En engu að síður í ljósi þess er fyrirkomulag skólamála í höndum sveitarfélaganna. Með einsetningu grunnskóla hefur orðið hröð þróun í uppbyggingu skólamötuneyta og hægt er að fullyrða að staðan í matarmálum grunnskólabarna er nú miklu betri en hún var fyrir áratug. Og hún er að mínu mati miklu betri, með fullri virðingu fyrir Bretum, en úti í Bretlandi.

Hins vegar liggur ekki fyrir heildaryfirlit um stöðu þessara mála en full ástæða er til þess að kanna með hvaða hætti staðan er í grunnskólum og fá yfirlit yfir hvers konar matur er á boðstólum fyrir nemendur og hvernig þeir síðan nýta sér það framboð skólans.

Í framhaldsskólanum er skipulag matarmála með ýmsum hætti og engin sérstök lagaákvæði eru um útfærsluna sem er alfarið í höndum skólanna sjálfra og án afskipta ráðuneytisins.

Það hefur ekki farið fram sérstök umræða um það hvort menntamálaráðuneytið beiti sér fyrir því að óhollur matur sé fjarlægður úr grunnskólunum eða framhaldsskólunum, enda eru grunnskólarnir eins og ég ítrekaði áðan á forræði sveitarfélaganna og ég vil láta þeim það eftir. Ég mun ekki beita mér fyrir því prívat og persónulega að óhollur matur verði fjarlægður úr öllum framhaldsskólum heldur vil ég miklu frekar sjá ákveðið í samræmi við þá stefnu að framhaldsskólarnir séu sem sjálfstæðastir, að það séu forráðamenn skólanna í samvinnu við nemendafélög og foreldra sem taki sjálfstæða ákvörðun um hvernig skóla þeir vilja móta innan sinna raða þannig að það verði ekki miðstýrð tilskipun ofan úr ráðuneytinu hvað má og hvað má ekki.

Sveitarfélögin, sem er ánægjuefni, hafa lagt mikla áherslu á að bjóða heitan mat í hádeginu á skólaskyldualdri. Þetta er mjög jákvæð þróun að mínu mati því ljóst er að tengsl góðrar næringar við námsárangur eru mikil og góð. Þess vegna er í ljósi þessa eðlilegt að í kjölfar upplýsinga um mötuneyti eigi sér stað umræða um hvernig mat eigi síðan að bjóða upp á í skólum.

Menntamálaráðuneytið hefur ekki til þessa beitt sér með beinum hætti á þessu sviði en ég vil þó vekja athygli á að það hefur veitt ýmsa styrki til aðgerða, t.d. með verkefninu Heilsuefling í skólum fyrir nokkru og einnig með stuðningi, t.d. við Latabæ, við þjóðarátak gegn hreyfingarleysi og offitu barna. Óbeint erum við að hvetja unga fólkið okkar hvort sem það er í grunnskólum eða framhaldsskólum til að hreyfa sig og vera meðvitað um hversu mikilvægt það er að borða hollan og góðan mat, ekki síst með tilliti til námsárangurs þeirra.

Ráðuneytið setur leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum aðalnámskrá, sem ég vona líka að flestir viti hér inni. Í aðalnámskrá allra skólastiga er lögð áhersla á heilbrigða og holla lífshætti. Á öllum skólastigum er kjörinn vettvangur til að fjalla um slík mál innan námsgreinarinnar lífsleikni. Á grunnskólastigi er líka rétt að taka fram að heimilisfræði er skyldunámsgrein og þar er m.a. lögð áhersla á að nemendur læri að útbúa holla og næringarríka rétti, læri um næringarfræði, heilbrigði, hollustu og neytendafræði og það smiti vonandi síðan út í neysluna sjálfa þannig að þeir átti sig á því að best er að borða hollan og góðan mat. Á framhaldsskólastigi er matreiðsla víðast hvar vinsæl valgrein í almennum framhaldsskólum.

Ég vil sérstaklega nota þetta tækifæri, virðulegi forseti, og hvetja foreldra til að brýna fyrir börnunum mikilvægi hollrar fæðu. Ég vil einnig hvetja stjórnendur skóla, sveitarfélög sem og framhaldsskóla til að beita sér fyrir því að óhollur matur verði ekki á boðstólum í skólum landsins.