132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Óhollt mataræði í skólum.

160. mál
[15:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin þó ég hafi ekki alveg verið sátt við þau. Ég var auðvitað að taka til umræðu framhaldsskólana af því, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að sveitarfélögin eru með fyrri stigin í skólunum. En það hafa verið gerðar á því úttektir að börnum og unglingum líður betur í skólanum og þeim tekst betur að tileinka sér námsefnið ef þau hafa borðað hollan mat og lítinn sykur.

Ég hefði viljað heyra hæstv. ráðherra segja það hér að hún ætli að taka á þessu með beinum hætti en ekki með óbeinum hætti. Að taka á þessu máli með óbeinum hætti og hafa svo sjoppu í hverjum skóla er náttúrlega ekki nógu gott. Foreldrar kvarta yfir því þegar krakkarnir fara úr grunnskólunum yfir í framhaldsskólann að þá tekur sælgætisátið við vegna þess að það er þar mest í framboði.

Varðandi hvað aðrar þjóðir eru að gera þá verið að banna sælgætisát í framhaldsskólunum t.d. í Bretlandi og meira að segja er það orðin stefna nýju ríkisstjórnarinnar í Noregi að skylda hreyfingu í öllum skólum. Ég hefði gjarnan viljað spyrja hæstv. ráðherra út í það. Ef hún vill ekki taka fastar á þessum málum með óhollustuna og framboð á henni í skólunum nema bara óbeint er hún þá tilbúin að setja inn í skólaskylduna hreyfingu á hverjum degi? Það eru Norðmenn einmitt að gera núna með sinni nýju ríkisstjórn, þ.e. að skylda hreyfingu inni í öllu námsefni. Börnin verða að hreyfa sig tiltekið mikið á hverjum einasta degi. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir hér er náttúrlega að í framhaldsskólanum er krökkunum ekki hleypt út vegna þess að það er svo mikil hætta á því að þau séu að hrekkja litlu krakkana sem eru í skólanum með þeim. Yfir þessu hefur einmitt verið kvartað við mig og þess vegna tel ég ástæðu til þess að hæstv. ráðherra taki á þessu líka með hreyfinguna, ekki bara hollustunni.