132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Könnun á fjarsölu og kostun.

194. mál
[15:10]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með að þetta skyldi ekki hafa náðst því mér finnst liggja mikið á í þessum efnum. Mér finnst það augljóst út frá því hvernig sjónvarpsstöðvarnar og útvarpsstöðvarnar líka eru greinilega að misnota aðstöðu sína og misnota kannski þá stemningu sem virðist vera gagnvart þessum lögbrotum. Mér finnst einhvern veginn ekki eins og hæstv. menntamálaráðherra hafi fundist liggja neitt á að gera eitthvað af alvöru í málinu. Ef það gilda lög í þessu landi og allur almenningur sér að þau eru þverbrotin á hverjum einasta degi, jafnvel oft á dag og það glymur í eyrum okkar og við horfum á það í sjónvarpinu, þá finnst mér ekki eðlilegt að við sitjum hjá og látum okkur það í léttu rúmi liggja. Ég lýsi því vonbrigðum með að ekki skyldi hafa verið haldið fast við að þessi könnun yrði látin fara fram síðastliðið vor. Gott og vel, það var ekki gert. Þá unum við við það. Ég segi einungis: Ég treysti því og finnst gott að heyra að félagsvísindadeild háskólans og Fjölmiðlaskólinn skuli hafa fengið þetta verkefni. Ég treysti því unga fólki sem þar starfar vissulega vel til að framkvæma svona könnun og bíð enn óþreyjufull eftir niðurstöðum.

Vonandi verða þær kynntar með hávaða og látum í fjölmiðlum. Ef ekki þá kem ég aftur í pontuna með svipaða fyrirspurn eftir áramótin til hæstv. ráðherra.